Á fyrstu árunum eftir veikindi mín var ég oft sorgmæddur og það voru margar erfiðar tilfinningar sem komu upp. Ég vissi oft á tíðum ekki hvað ég átti að gera við þessar tilfinningar en áttaði mig fljótlega á því að ég þyrfti að finna leið til þess að taka sorgina í sátt með einhverjum hætti, lifa með henni.
Það var erfitt að vera 37 ára, lífið allt á haus vegna hjartaveikindanna og því fylgdi mikill vanmáttur. Ég vissi ekki hvað yrði um mig og ég var óviss um framtíð mína og hvernig mér myndi reiða af til lengri tíma litið.
Þetta er sagan af vangaveltum mínum um sorgina eins og hún birtist mér á fyrstu árunum eftir veikindi mín.
Eins undarlega eins og það kann að hljóma ferðast sorgin með mér í gegnum lífið. Flesta daga heldur hún sig í hæfilegri fjarlægð en fylgist með.
Á fyrstu 37 árum lífs míns óttaðist ég sorgina og taldi víst að þegar hana bæri að garði væri hún boðberi válegra tíðinda og framundan væri svartnætti og óáran.
Þegar ég fékk hjartaáfallið bauð ég sorginni inn til mín því það var eina ráðið sem mér datt í hug til að geta lifað með henni, við urðum að kynnast. Fyrstu árin sem ég og sorgin áttum saman töluðumst við ekki mikið við, hún bara var þarna úti í horni og vakti með mér ótta.
Í fyrstu vissi ég ekki hvernig ég ætti að höndla hana því ég var hræddur. Ég var hræddur við hið óþekkta og óttaðist um líf mitt og áttaði mig ekki hvað bjó að baki sorginni.
Smám saman vandist ég sorginni. Hún kom alltaf til mín á erfiðum stundum og huggaði mig. Í fyrstu fannst mér nánast óviðeigandi að eiga í slíku sambandi við sorgina en smám saman lærðist mér að sorgin var tilbúin til að taka við öllu því sem olli mér vonbrigðum, reiði eða ótta og veita mér lausn.
Sorgin fór ekki fram á að ég væri sorgmæddur alla daga heldur vildi hún létta mér lífið, rétta mér hjálparhönd þar sem þrótt minn þvarr.
Í dag er ég stundum sorgmæddur en ég er ekki hræddur. Ég er sorgmæddur yfir því að hvað það er sárt þegar læknar segja mér að það sé ekkert meira hægt að gera fyrir mig að sinni.
Ég er sorgmæddur yfir því að búa við það að vera áhorfandi að lífinu með takmarkaðri þátttöku, geta ekki alltaf verið með.
Ég er sorgmæddur yfir því að geta ekki hlaupið um græna velli með syni mínum.
Ég er sorgmæddur yfir því að geta ekki verið Mjöllinni minn það karlmenni sem ég svo gjarnan vildi vera.
Ég er sorgmæddur yfir því að geta ekki hjólað með fjölskyldunni um bæinn með vindinn í fangið.
Ég er sorgmæddur yfir því að geta ekki dansað jive fram á rauða nótt.
Ég er sorgmæddur yfir því að geta ekki sungið úr mér lungun Íslenska ættjarðarsöngva þegar við á.
Ég er sorgmæddur yfir því að hafa hjarta sem virkar vel í hvíld en hefur takmarkaða afkastagetu.
Allar þessar sorgir mínar tekur sorgin við frá mér án umhugsunar, þannig er sorgin. Vinfengi mitt og sorgarinnar hafa fætt af sér gleðistundir sem eiga fáar sínar líkar því eins og stendur skrifað í spámanninum er sorgin gríma gleðinnar. Sorgin hjálpar mér að sleppa tökunum á því sem ég ekki get og beinir sjónum mínum að gleðinni á bak við grímuna.
Sorgin er vinur minn.
Árósum maí 2010
Björn Ófeigsson