Málaferlin mín við ríkið tóku átta og hálft ár og það er langur tími, alltof langur tími. Þetta var oft skrambi erfitt og oft langaði okkur að gefast upp en það var samt aldrei raunverulegur valkostur, til þess var réttlætiskennd okkar Mjallar hreinlega of sterk og ég of þrjóskur.
Ári eftir að málaferlunum lauk fékk ég tölvupóst frá lækninum sem var ábyrgur fyrir mistökunum sem urðu við greiningu mína og meðferð. Í póstinum gat hann þess að hann hafi hugleitt að senda mér póst í langan tíma en ákveðið að bíða þangað til núna. Hann gat þess að hann bæri ekki til mín neinn kala og vildi fullvissa mig um að að ég væri ávalt velkominn á Landspítalann ef ég þyrfti á þjónustu spítalans að halda.
Þegar ég fékk póstinn varð ég undrandi og velti því töluvert fyrir mér hvernig ég ætti að bregðast við. Mér fannst hann hugrakkur að senda póstinn og mér fannst virðingarvert af honum að hafa gefið mér góðan tíma til að anda eftir allt málaharkið, það hafði tekið mikið á.
Í gegnum árin hef ég stundum hugsað um fyrirgefninguna og á þessari stundu komu þær vangaveltur upp á yfirborðið. Ég hafði stundum þegar ég velti þessu fyrir mér, komist að þeirri niðurstöðu að kannski væri það ekki í mínum verkahring að fyrirgefa, en þegar ég las póstinn frá lækninum fann ég að það skipti mig máli.
Þar sem ég sat og fór yfir málaferlin þá komst ég að því að ég hafði í rauninni alltaf kunnað ágætlega við persónu læknisins þó svo ég hafi verið honum ósammála um flest í hans málsvörnum og fundist þær jafnvel skrýtnar á köflum. Ég hafði þó í huga að eðli málsins samkvæmt, þá hefði hann í sjálfu sér ekki marga kosti þar sem vinnuveitandi hans var Landspítalinn og LSH semur ekki við fólk heldur ver sig með kjafti og klóm.
Niðurstaða mín var sú eftir miklar vangaveltur að ég skrifaði honum til baka og þakkaði honum fyrir póstinn og sagði að mér hefði þótt vænt um hann og ég væri búinn að fyrirgefa honum að fullu, en vinnubrögð spítalans og einstakra starfsmanna sætu ennþá í mér.
Það var merkilegt að skrifa þessi orð og finna í hjarta mínu að þetta var rétt og það skipti mig máli að fyrirgefa. Við skiptumst síðan á nokkrum póstum og ákváðum að þegar ég flytti heim myndum við hittast og ræða málin.
Við hittumst síðan ég og læknirinn. Við tókumst í hendur, settumst niður og fórum yfir málið, hvernig við sem manneskjur hefðum upplifað ferlið. Mér varð ljóst strax í upphafi að atvikið þegar hann tók ranga ákvörðun sem leiddi til skaðans á hjartanu mínu, hafði haft á hann djúpstæð áhrif, miklu meiri en ég hafði ímyndað mér. Það var sterk upplifun að sitja þarna á móti honum og uppgötva að við höfðum í rauninni báðir verið fórnarlömb kerfis sem var ómanneskjulegt og óskilvirkt.
Mér fannst að ef við hefðum bara fengið að tala saman strax eftir atvikið á opinn og heiðarlegan hátt hefðum við leyst málið og hvorugur okkar hefði þurft að burðast með þetta í átta og hálft ár. Sú leið er ekki samþykkt af kerfinu og þess í stað valinn sú leið að berjast í réttarsölum og eyða ómældum tíma og fjármunum í að munnhöggvast fyrir framan dómara, skrifa greinargerðir, fá álit, verða reiður og sár og missa síðan trú og traust á þjónustu Landspítalans. Það er mikið mál að missa trúna og finnast maður nauðbeygður til að flytja úr landi til að fá þjónustu án þess að þurfa stanslaust að horfast í augu við og þiggja þjónustu frá læknum sem unnu markvisst gegn manni með því að skrifa greinargerðir fyrir spítalann þar sem beinlínis var farið með rangt mál og snúið út úr málsatvikum eins engin væri morgundagurinn.
Þess vegna var gott að koma heim til Íslands og eiga þennan fund með lækninum, lækninum sem var aldrei upplýstur um hvernig dómsmálið gengi af yfirboðurum sínum í átta og hálft ár, lækninum sem hugsaði oft um það af hverju hann hefði tekið ranga ákvörðun og væri ekki ennþá búinn að finna svarið, lækninum sem var hugsað til mín í gegnum árinn um hvernig ég hefði það, lækninum sem aldrei var spurður að því í átta og hálft ár hvernig honum liði.
Ég hafði fyrirgefið lækninum, ég var sáttur.
Björn Ófeigsson