Skipulag læknisþjónustu á Íslandi er vægast sagt tilviljanakennt. Skilgreina þarf betur hlutverk sjúkrahúsa, heilsugæsla og sérfræðilækna. Slíkt myndi lækka útgjöld til muna. Þetta segir Runólfur Pálsson, formaður Félags íslenskra lyflækna.
Runólfur segir langstærsta verkefni heilbrigðisþjónustunnar vera meðferð langvinnra sjúkdóma. “Því er ekkert stjórnað hvar sjúklingar með langvinna sjúkdóma, einn eða fleiri, njóta þjónustu, hvar þeir eru í eftirliti og hvar tekin er ákvörðun um þeirra meðferð,” segir hann.
Í nýjasta hefti Læknablaðsins segir hann meðferð slíkra sjúkdóma afar krefjandi viðfangsefni bæði hvað varðar kostnað og starfskrafta. Þrátt fyrir það hafi málið ekki verið tekið föstum tökum.
“Alvarlegustu tilfellin eiga heima á göngudeildum Landspítalans þar sem er greiður aðgangur að flókinni þjónustu en léttari tilfellin hjá heilsugæslunni sem er ódýrasti valkosturinn, tilfellin sem falla þarna á milli ættu svo að vera á hendi sérfræðilækna.
Nú er staðan ekki þannig,” segir hann. Í alltof mörgum tilfellum fari fólk fram hjá heilsugæslulæknum og fái þjónustu annarra sérfræðilækna, jafnvel árum saman þótt þess sé ekki þörf og hafi í för með sér meiri kostnað fyrir samfélagið. Þá hafi skortur á heimilislæknum ýtt enn frekar undir þessa þróun.
Með frekari skilgreiningu á því hvaða sjúkdómar og á hvaða stigi geti verið á hendi hvers hluta innan heilbrigðiskerfsins mætti létta álag á bráðaþjónustu sjúkrahúsanna. Í flestum tilfellum ættu heilsugæslulæknar að hafa yfirsýn yfir málefni þeirra sem þjást af langvinnum sjúkdómum en til þess þurfi heimilislæknar að hafa greiðan aðgang að upplýsingum um sjúklinga sína þegar þeir fá þjónustu annars staðar. Víða erlendis séu þessir hlutir í mun betri farvegi en hér er og byggist það á mikilli samvinnu lækna innan og utan sjúkrahúsa. Hérlendis sé veruleg tregða á þeim samskiptum og úr því verði að bæta.
Samskiptaleysi þessara þriggja grunneininga heilbrigðiskerfisins valdi því miður því að algengt sé að enginn hafi heildaryfirsýn á lyfjameðferð sjúklinga. Lyfjagagnagrunnur og rafrænar lyfjaávísanir séu gott framtak í þeim efnum en hann ítrekar að auk þess þurfi ávallt að skilgreina hver sé umsjónarlæknir sjúklings með langvinnan sjúkdóm og að honum sé ávallt tilkynnt um nýjar lyfjaávísanir.
– kdk
Fréttablaðið 06.04.2008