-Auglýsing-

Sálin og sálfræðin

Mjöll Jónsdóttir
Mjöll Jónsdóttir

Í dag sit ég og safna orku. Það hefur mikið gengið á og langt síðan ég hef sett tilfinningu á blað. Ástæðan er einföld. Ég var úrvinda af tilfinningaþvælu, búin með allar skýringar, allt komið í hring, allt missti merkingu, ekkert eftir nema tómar hendur og engin óvinur að mæta með sverð á lofti.

Það er skrítið, en það reyndist jafn erfitt að hætta að berjast og það var að berjast. Eftir átta ár náðist niðurstaða. Við uppskárum. En ekki í samræmi við erfiði að okkur fannst. Það var verst. Það var skrítið að eiga engin tromp eftir. Í svo mörg ár höfum við keyrt áfram á því að fagna litlum sigrum, nýta reiði og vonbrigði niðurlags sem orku í næstu baráttu, það var alltaf hægt að horfa til næsta vors, næsta hausts, þegar þessi skýrsla væri komin eða þegar dómur yrði fallinn. Dómur féll. Ég féll. Reiðin, vonbrigðin, vonin, hugsjónin fann engan farveg. Þetta var búið. Ég var hjálparlaus í óánægju minni.

Ég hélt áfram að beina athygli minni að náminu mínu, daglegu lífi. Ég sá ekkert, ég gat ekkert nema gleymt mér í daglegum samskiptum, gleði stundarinnar, fólkinu mínu, samstöðunni sem ég fann. Það var gott. En ég var gagnslaus. Ég var orkulaus. Ég var útbrunnin.

Þegar baráttan tekur alla þá orku sem maður á, maður stendur sína plikt allt til enda, þá er ekkert eftir þegar baráttunni líkur. Það var svo einfalt. Ég horfði á lokaverkefni mitt og ég gat ekki séð samhengið. Ég horfði á dagana líða hjá. Ég horfði á tímann breytast í skrítna veru sem var alltaf kjurr, hélt mér fanginni, en var aldrei þar, alltaf rokin og ég sá hana aldrei, skildi hana illa. Ég sat og gladdist heima, elskaði litla veruleikann minn, en hann var smár og afköstin minni.

Ég varð hrædd. Þetta er ekki ég. Hvernig get ég verið ég ef þetta er ég. Hvernig verð ég aftur ég. Hver er ég eftir svo langa baráttu sem hafði tekið bros mitt og bjagað það, hjarta mitt og fyllt það af tortryggni sem ég þekki ekki, bjartsýni mína, traust mitt á fólki sem ég elskaði áður. Fólkið og traust mitt á því. Þannig kaus ég að vera, þannig vildi ég lifa. Þann hæfileika hafði ég allt í einu misst. Fólk brást. Ég brást. Ég var aum í hjartanu og sál mín hafði þurft að horfast í augu við það að það er ekkert réttlæti. Það er bara niðurstaða fundin út úr lagabókstaf sem snýst ekki um réttlæti. Hann snýst um lagabókstaf og túlkun á honum.

Ég leitaði hjálpar. Er ég þunglynd, nei. Ég vissi það svo sem. Á ennþá of mikið eftir að mér til að svo sé. Er ég með ADHD. Já líklega, hef svo sem alltaf vitað það, en það kom þessu ekkert við þó svo sá hluti sálarinnar fengi byr undir báða vængi í svona aðstæðum. Er ég þreytt, já. Er ég uppgefin, já. Er ég hermaður nýkominn heim af vígvellinum og þarf tíma til að átta mig og skilja og setja reynslu í samhengi, segja frá, gráta, upplifa aftur, hætta að upplifa og losna við hluti úr sálinni, ná fjarlægð, já. Ég kom heim úr stríði sem enginn sá, engin móttökunefnd, engir riddarakrossar. Ég kom bara heim.

- Auglýsing-

Ég leit alltaf aftur á lokaverkefni mitt, sem varð orðið að skrímsli. Hvernig gat ég með snúna sál, ekki brotna, en auma, sest niður og klárað lokaverkefni. Ég reyndi, ég komst aðeins áfram. Ég missti þráðinn. Ég lenti í daglegum uppákomum sem tóku allt vinnsluminni mitt. Mér fannst ég útbrunnin.

Ég gat ekki þolað veikindi Bjössa. Þau höfðu gengið að mér sálarlega dauðri eftir baráttuna við lágkúrulega lögfræðinga. Ég gat ekki þolað að veikindin héldu áfram að ágerjast, bæta við sig fleiri öngum, fleiri greiningar, fleira að taka við. Ég tók ekki við. Ég horfði á hann en gat ekki horft. Ég gat ekki sýnt samúð, ég gat ekki borið meira. Ég vissi hvar ég stóð. Ég reyndi að setja frá mér þreytu, taka upp athygli þegar Bjössi þurfti undir hnífinn. Ég reyndi, gat smá. En ég var lélegur aðstandandi. Ég sá hvar mig skorti getu til að vera það sem ég vildi vera og vissi að Bjössi þurfti. Ég reyndi en sálin gat ekki meir.

Þar sem hlustun þurfti koma afneitun. Þar sem samúð þurfti kom pirringur. Þar sem þekkingu og skilning þurfti kom ótti. Hann er yfirleitt ekki þess megnugur að bæta nokkurt ástand. Hvað ef þetta heldur áfram. Þetta hafði ekki hljómað lengi í hausnum á mér. Kannski hafði ég bara ekki haft tíma. Hvað ef hann hættir að geta það sem hann þó getur í dag. Hvað ef þessi þróun sem nú hefur átt sér stað, heldur áfram, hvar er hann þá eftir 1 ár, 3 ár. Er ég þá að þvo hann og klæða, takast á við skap og óbilandi sál sem ekki vill vera annað en karlmenni og baráttujaxl. Gera sjálfur. Ég get ekki tekist á við þessar hugsanir, ég hef ekki baráttu til að sjá leið.

Það líður á vetur.Það birtir. Það vorar. Það spretta lauf. Það sprettur von. Það sprettur einhver ró og sátt og jafnvel geta til að sjá. Ég sest niður og ég næ áttum í lokaverkefninu mínu. Ég sé hvert ég ætla, ég jafnvel get. Ég get meira að segja vel. Að geta gefur mér orku. Það rofar til í hausnum. Ég skipulegg, næ fókus, skila köflum. Það er allt að gerast. Bjössinn minn fallegi er ekkert veikur. Hann er maðurinn minn. Hann er skjólið mitt sem hefur stutt mig þegar ég þurfti á að halda. Ég hef stutt hann oft áður, hann hefur stutt mig oft áður. Þess vegna erum við. Þess vegna getum við. Það þarf ekki líkamlega heilt hjarta til að styðja, bara hjarta sem slær og huga sem vill og getur. Hann getur. Hann er skjól mitt gegn vindum. Hann er rót mín og vængir um leið. Ég get. Við getum.

Það líður tíminn. Ég skrifa og skrifa. Ég sé framtíð, ég sé næsta verkefni. Spennandi. Ég hef tekið upp sverðin mín og pússað. Gömul verksummerki fölnuð, skrúbbuð burt, eggin glansar og ég er klár. Hvernig gat þessi barátta náð mér niður. Ég veit það ekki en ég skil það. Þurfa ekki allir hvíld eftir bardaga. En reynslunni ríkari ákveð ég að leggja sverðin aftur niður. Ég treysti, ég held að fólk muni reynast okkur vel. Ég vel að taka dæmum um hið gagnstæða sem frávikum. Fólk er gott. Í dag sit ég , loka, og vel að taka nokkur frávika dæmi undanfarinna mánuða, daga, og pakka þeim vel inn. Ég tek á mig lærdóm reynslunnar, eins og ég get, og legg þessa pakka varlega á jörðina. Ég geng burt.

Ritgerðin flýgur áfram, það klúðrast sumt, annað tekst. Ég held áfram. Ég skila eftir 3 vikur. Ég get það. Mér finnst gaman og ég nýt þess að læra. Ég hlakka til að koma út í heiminn og segja ég gat. Ég er búin. Ég er sálfræðingur. Vá spáðu í það. Það er svo margt sem bíður. Svo margir spennandi möguleikar. Ég sé óendanlega margar leiðir. Ég sé lausnir. Ég hef trú á lífinu, ég hagræði ábyrgð minni á framtíðinni á herðunum, góð byrði, bæti í hraðann, tek stefnuna og fer. Áfangastaðurinn er Bjössi, Bensi, Jónsi, ritgerðin mín, framtíðin, lífið. Og veistu, það er svo gott að finna gamalkunna tilfinningu læðast upp á milli visnandi hræa grárrar þreytunnar, uppgjafarinnar. Þetta líf er magnað, þetta líf er gott og ég er næstum aftur ég.

Árósum 23.05.2012

Mjöll Jónsdóttir

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-