-Auglýsing-

Ryk og skítur

MjollÉg las frétt á netinu. Frétt um sigur lífsins og í raun einnig um einstaka hæfni og tækni sem við mannverurnar höfum þróað. Það er magnað að hugsa til þess. Fréttin var af manni sem fór í hjartaskiptaaðgerð í Svíþjóð. Hann tók brosandi við hinu nýja lífi sínu, væntanlega þakklátur því tækifæri sem hann nú fær til að halda áfram á tíma sem ekki er svo sjálfsagt að hann eigi.

Fréttin var glaðleg. Viðbrögð mín voru þó ekki jafn glaðleg. Það er alls ekki það að ég óski þessum manni neins annars en að hann eigi gott líf. En viðbrögð mín eru ekki hrein. Það er skítur í sálu minni sem litar gleði mína dökkum litum. Ég er reið. Ég er afbrýðisöm. Ég er hjálparvana og mér gremst að geta ekkert gert til að laga og umbreyta þeirri fortíð sem bjó til þá framtíð sem ég lifi í dag.

 

Það er ekkert lítið mál að fá hjartaáfall og það er risastórt mál að gangast undir hjartaskiptaaðgerð. Þetta hlítur að vera erfitt. Það er hins vegar aðdáunarvert allaveganna svona að utan séð, hversu vel þetta virðist hafa gengið hjá honum. Sem er auðvitað frábært þó skíturinn í sálu minni hylji aðeins fegurðina í því sem ég sé. Af hverju fengum við ekki þetta? Af hverju þurfti Bjössi að lenda í því að fá ranga meðhöndlum sem hefur gert það að verkum að hann mun aldrei aftur ná upp sínum fyrri styrk og heilsu?

Mig svíður í sálinni þegar ég hugsa til dagsins sem Bjössi fékk hjartaáfall. Þegar ég hugsa um hann liggjandi í margar klukkustundir á köldum bekk í einhverskonar skoðunarherbergi á spítala og enginn sinnti honum. Einn og hræddur og á meðan læknirinn sinnti öðru fólki dó hjarta hans hægt og bítandi frumu fyrir frumu. Af hverju sá enginn að hann var veikur? Af hverju varð það að vera þannig að ítrekað fóru vísbendingar framhjá annars hæfu starfsfólki þar til allt, allt of seint? Ekki of seint fyrir lífið en of seint fyrir heilbrigt hjarta.

- Auglýsing-

Allt frá þessum örlaga degi hefur Bjössi barist við kerfi sem finnst það óþægilegt að hann skuli hafa lifað af. Hann er minnismerki þess að við erum mannleg. Það versta finnst mér kannski samt, er að enn þann dag í dag hefur enginn sýnt honum þá virðingu að biðja hann afsökunar. Líf hans er svo skert og þeir sem á því bera ábyrgðina vilja ekki horfast í augu við þá staðreynd að þeir gerðu mistök. Mistök sem þó hafa verið staðfest með dómi. Ég vona samt að fólk hafi kannski lært eitthvað af þessum atburði, þó ekki væri meira.

Heilsu Bjössa hrakaði mikið þó slæm hafi verið fyrir og að því kom að til að lifa af þurfti eitthvað að gera. Hann var sendur í tilraunakennda aðgerð sem hafði ekki verið framkvæmd fyrr með þessum hætti á Íslandi. Aðgerðin skilaði litlu fyrsta árið. Hún bjargaði þó lífi hans því gúlpur á hjartanu var að því kominn að springa og ef það hefði gerst þá væri hann ekki hér. Seinna heyrðum við þó frá sérfræðingum erlendis að ákvörðunin um þessa aðgerð hefði verið röng. Það hefði átt að senda hann beint í hjartaskipti. Eina ferðina enn skópu læknar á Íslandi framtíð okkar. Aðgerðin gerði hann þó stöðugann, það tók nánast 2 ár en nú hefur hún skilað sínu. En hann er stöðugur á svo lágu plani. Lífsgæði hans eru svo skert á svo óendanlegan máta að stundum á ég erfitt með ímynda mér það líf sem við gætum átt ef engin mistök hefðu verið gerð og allar ákvarðanir teknar hefðu verið réttar.

Auðvitað erum við líka þakklát. Við erum þakklát fyrir svo margt og miðað við meðferðina sem hann fékk og hefur fengið á Íslandi allar götur síðan, þá er það kraftaverk að hann sé yfir höfuð á lífi! Við erum þakklát fyrir það líf sem við eigum og okkur líður vel. Við sköpum okkur það líf sem við viljum og hægt er miðað við aðstæður. Það er bara ekki það sem ég vil ræða um núna. Núna vil ég fá hafa leyfi til að segja frá hinu. Þessu leiðinlega og erfiða. Þessum skít í sálinni sem gerir það að verkum að ég samgleðst ekki af öllu hjarta þegar ég sé þessa frétt.

Flesta daga er hreint og fínt. Það þarf samt ekki mikið sinnuleysi til að rykið fari að safnast upp og þegar það gerist verður erfitt að halda sig frá því að stara á það sem maður hefur misst. Það sem hefði getað verið. Það sem var. Það er eiginlega ekki hægt að setja það niður á blað hversu mikið skert líf hans er. Það er einfaldlega skert alls staðar þar sem horft er. Í síðustu viku ætlaði Bjössi að rétt bara strjúka með bóni og klút yfir blett aftan á bílnum. Sú athöfn sló hann niður og hann endaði á götunni með Önju gjörgæsluhjúkku í þarnæsta húsi stumrandi yfir sér. Hann verður móður og másandi við það eitt að fara í sturtu. Flesta daga þyrfti hann í raun að hvíla sig eftir sturtuna þó þrjóskan sem haldið hefur í honum lífinu, fái hann til að halda áfram. Hann keyrir sig út á hverjum degi við það eitt að sinna því litla lífi sem hann á. Pabbi er veikur í hjartanu segir litli töffarinn sem er búinn að læra að með pabba þarf allt að vera rólegt en með mömmu má gera allt vitlaust!

Ég vildi óska þess að Bjössi hefði verið rétt greindur. Ég vildi óska þess að hann hefði ekki þurft að berjast fyrir því að fá rétta meðhöndlun og viðurkenningu á ástandi sínu í mörg ár á eftir. Ég vildi óska að, eins og maðurinn í greininni, hefði hann verið sendur í hjartaskipti. Ég vildi óska að hann gæti hlaupið. Gæti gengið lengra en út í bíl. Gæti farið með mér á skíði. Gæti farið í fótbolta með stráknum sínum. Gæti unnið. Slegið grasið.Haldið á innkaupapokunum út í bíl. Gæti gert svo miklu meira en hann getur í dag. En hann getur það ekki. Ég óska auðvitað manninum í greininni alls hins besta og vonandi á honum eftir að halda áfram að ganga vel í baráttu sinni sem er líklega ekkert auðveld.

Ég vona að þetta hafi dugað og ég hafi nú þrifið allan skítinn út og takist svo glöð á við daginn á morgun. Með von og þakklæti fyrir það líf sem við eigum.

Skrifað 5.9.2009 kl. 17:22 af Mjöll

-Auglýsing-
-Auglýsing-
mjoll
mjoll
Mjöll er klínískur sálfræðingur og hjartamaki. Hún þekki hlutverk aðstandenda hjartasjúklings með hjartabilun vel.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-