Febrúarmánuður verður rauður í Bretlandi þar sem Bresku hjartasamtökin eru með mikið átak í gagni og mælast til þess að fólk klæðist rauðu til að vekja athygli á málstað hjartans.
Hjartaáföll og hjartasjúkdómar eru helsta dánarorsök Breta og Bresku hjartasamtökin eru mjög virk í því að láta á sér bera og koma á framfæri áhugaverðu efni sem virkilega fær fólk til að hugsa.
Ég hef oft látið mig dreyma um að við gætum hér á Íslandi haft eina viku í febrúar þar sem áherslan væri á að allir gengu í rauðu og töluvert mikið væri úr þessu gert.
Ég tala nú ekki um að það myndi lífga hressilega upp á skammdegið í febrúar.
Vonandi rætist sá draumur minn sem fyrst því staðreyndin er sú að á hverju ári látast um 700 manns úr hjarta og æðasjúkdómum á Íslandi sem er ótrúlegt en satt 40% af öllum þeim sem látast á Íslandi á hverju ári.
Það eru tildæmis ekki margir sem gera sér grein fyrir því að það deyja fleiri úr hjarta og æðasjúkdómum en öllum krabbameinunum samanlagt og sennilega eru fleiri hræddir við að fá krabbamein en hjartaáfall.
Árið 2005 dóu t.d.150 konur úr kransæðasjúkdómi.
Sama ár dó 51 kona úr lungnakrabbameini en 31 úr brjóstakrabbameini.
Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar rætt er um kvennaheilsu því sjaldan er það í sviðsljósinu að aðaldánarorsök kvenna sé kransæðasjúkdómur.
Á árinu 2005 dóu um 200 karlar úr kransæðasjúkdómi
Sama ár dóu 70 karlar úr lungnakrabbameini og 55 karlar létust úr blöðruhálskirtilskrabbameini.
Þrátt fyrir þessar tölulegu staðreyndir um dánarorsakir Íslendinga er engum opinberum fjármunum veitt til hópskoðana eða leitar á kransæðasjúkdómum til að koma í veg fyrir að þeir valdi örkumlum eða dauða. Öll þekkjum við fólk sem látist hefur í blóma lífsins úr hjarta- og æðasjúkdómum eða verið hætt komið fyrir aldur fram. Mörg þeirra dauðsfalla hefði mátt fyrirbyggja. Staðreyndin er nefnilega sú að fyrirtaks úrræði og fyrirbyggjandi meðferð er til við flestum hjartasjúkdómum og áhættuþáttum þeirra.
Ég skora á fjölmiðla að athuga málið. Þetta er verulega áhugavert efni og góð tilbreyting frá krepputali og brölti stjórnmálamanna.
Hægt er að sjá auglýsingu BFH um hjartaáfall hér
Hægt er að sjá auglýsingu BHF um hjartað hér
Hægt er að fara inn á heimasíðu BHF hér