Eins og ég hef getið um áður erum við að á hjartalif.is í samstarfi við TRI reiðhjólaverslun í sumar vegna verkefnisins hjólað fyrir hjartað. Þeir lánuðu mér rafmagnshjól til að prófa og hef ég verið með það núna á fjórðu viku. Ég er hjartabilaður og hjartað í mér hefur takmarkaða afkastagetu. Þetta hefur valdið því að erfiðlega hefur gengið að berja í mig þreki og ég hef alltaf lent í vandræðum þegar stóru vöðvana vantar meira meira afl, þá hefur hjartað ekki haft undan.
Þessi staðreynd hefur verið takmarkandi þáttur í mínu lífi og haft áhrif á lífsgæði mín og möguleika til þess að gera það sem mér dettur í hug. Hjólreiðar hafa af þessum orsökum kannski ekki verið inni í myndinni hjá mér. Það var því með nokkuð blendnum huga sem ég sagði já þegar TRI bauðst til að lána mér rafmagnshjól til að prófa. Satt best að segja hafði ég ekki sérlega mikla trú á sjálfum mér í verkefnið en ákvað að láta slag standa og prófa og finna út hvort rafmagnshjól passi fyrir hjartafólk og þar með hjartabilaða.
Það er skemmst frá því að segja að fyrstu kynni mín af hjólinu komu mér á óvart. Ég hafði ekki gert mér grein fyrir því hvernig rafmagnshjól virka og vissi ekki hverju ég átti von á. Rafmagnshjól eru þannig að alltaf þarf að stíga pedala en hægt er að stilla kraftinn allt eftir því hvað maður þarf mikla hjálp. Ég ákvað að byrja á hámarks hjálp.
Ég settist á fákinn og um leið og ég knúði pedalana tók hjólið við sér og ég rauk af stað. Álagið var ótrúlega lítið en hjólið þaut áfram allt eftir því hvað ég sneri pedulunum hratt. Tilfinningin var stórkostleg og ég hefði ekki trúað því að óreyndu hvað samspilið milli þess sem ég steig hjólið og rafhlöðunnar/mótorsins var fullkomið. Um leið og ég steig pedalan tók hjólið við sér með það sama, þetta var ótrúlegt.
Fyrstu vikuna mína fór ég full geyst af stað og varð ansi þreyttur eftir hvern túr þó hann væri ekki langur. Nú hefur mér vaxið kjarkur og tilfinningin fyrir því að ég ráði við verkefnið aukist líður mér betur og betur á þessum galdrafák. Til að toppa allt saman þá benti Bjarni Már Ólafsson sjúkraþjálfari -sem tekur þátt í verkefninu með okkur- mér á rannsókn þar sem var borið saman munurinn á því að hjóla á venjulegu hjóli og svo aftur rafmagnshjóli. Niðurstaðan var hreint út sagt ótrúleg. Munurinn var í raun ótrúlega lítill. Það skal tekið fram að hjóluð var venjuleg leið til vinnu og samræmi í álagi og hraða til að sem raunsönnust mynd fengist af þessu. Við munum fjalla nánar um þessa og fleiri rannsóknir á næstu vikum.
Aðalmálið er að rafmagnshjól eru raunverulegur valkostur fyrir fólk sem hefur skerta getu vegna veikinda eða annarra takmarkana á getu. Það fylgja því stóraukin lífsgæði að hafa möguleika á því að stíga upp á hjól og njóta útiveru í góðum félagsskap sér til heilsubótar. Við þetta má bæta að ég hef átt í erfiðleikum með verki í mjöðmum þegar ég hef verið á göngu. Í þeim hjólatúrum sem ég hef tekið hef ég ekki fundið fyrir þessu og þykir mér að mjög áhugavert.
Með rafmagnshjólum sé ég fram á gríðarlega möguleika fyrir fólk sem hefur ekki fulla getu til að hjóla á venjulegu hjóli en hefur löngun til að njóta útivistar og hreyfingar með þessum hætti.
Ég stefni að því að segja ykkur meira frá ævintýrum mínum á rafmagnshjólinu í sumar. Um leið þakka ég TRI mönnum fyrir að gera mér það kleift að prófa.
Við þetta má bæta að líkur eru á því að við getum boðið upp á létta hjólatúra á þríðjudagskvöldum í sumar og verða þeir kynntir nánar hér á hjartalif.is á næstu dögum. Auk þess komum við til með að geta boðið upp á hópa fyrir þá sem geta hjólað af meiri krafti.
Svarið við spurningunni um hvort rafmagnshjól passi fyrir hjartafólk er klárlega já og það alveg fullkomlega.
Nánari upplýsingar er hægt að finna á tri.is
Björn Ófeigs.
bjorn@hjartalif.is