Það er ástæða fyrir því að talað hefur verið um að hjartað slái í Vatnsmýrinni og flugvöllurinn sé sannarlega lífæð þeirra sem eru bráðveikir.
Eftir því sem árin hafa liðið hefur gildi þess að vera með gott sjúkraflug í landinu komið æ betur í ljós og þrátt fyrir betri samgöngur á landi er ekkert sem kemur í staðinn fyrir öflugt sjúkraflug.
Þeir sem best þekkja til eru á þeirri skoðun að það sé ekki raunhæft að þyrlur taki alfarið við öllum sjúkraflutningum heldur sé hagkvæmara, fljótlegra og öruggara fyrir sjúklinga að fara með flugvél á milli staða. Það er því ekki að ástæðulausu að lögð sé mikil áhersla á að flugvöllurinn verði á sínum stað.
Lífæðin
- Einkenni frá hjarta er ástæða um þriðjungs sjúkraflugs og líklegt að tugir hjartasjúklinga eigi fluginu líf sitt að launa.
- Næstum tvö sjúkraflug eru flogin á Reykjavíkurvöll allt árið um kring, hátíðisdaga sem aðra daga.
- Ákvörðun um að senda sjúkling með sjúkraflugi er tekin af læknum sem telja aðrar leiðir ekki færar. Um 50% af þeim ferðum eru bráðatilvik.
- Á hverju ári er fjöldi tilvika þar sem læknar eru sammála um að skjótur flutningur með sjúkraflugi hafi skilið á milli lífs og dauða.
- Þeir sjúklingar sem ekki þurfa skyndilegan flutning fara til Reykjavíkur á sjúkrahús eða til læknis með áætlunarflugi.
- Mörg dæmi eru um að sjúklingum hafi verið haldið á lífi með öllum tiltækum ráðum allt flugið og lífi þeirra bjargað, mínútur skipta máli.
- Blóðsendingar til og frá Blóðbankanum í Reykjavík sem ekki þola bið eru sendar með flugi.
- Þyrlur geta ekki alltaf lent við sjúkrahús og þurfa á flugvellinum að halda við ákveðnar aðstæður.
Þetta eru nokkrar af ástæðunum fyrir því að talað er um mikilvægi þess að hjartað slái í Vatnsmýri og að flugvöllurinn sé sannkölluð lífæð.
Til að skrifa undir undirskriftalistann til stuðnings flugvellinum er hægt að fylgja þessum hlekk: Hjartað slær í Vatnsmýri