-Auglýsing-

Mikilvægt að ræða saman um líffæragjöf

Hvað á að gera við líffærin eftir andlátið, á að leyfa læknum að fjarlægja þau sem nothæf eru og græða í aðra sem þurfa á þeim að halda? Nú getur svo farið að við verðum öll að hætta að veigra okkur við að tala um þessa hlið dauðans. Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram tillögu um að framvegis verði notuð reglan um „ætlað samþykki“, þ.e. að einstaklingar séu sjálfkrafa líffæragjafar nema þeir eða aðstandendur þeirra hafi óskað annars. 

Í gildandi lögum er gert ráð fyrir ætlaðri neitun svo afla verður samþykkis nánustu ættingja. Aðstandendur ráðstafa nú líkama okkar eftir dauðann, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Við getum þó undirritað svonefnda lífsskrá hjá landlæknisembættinu og staðfest þannig að við viljum gefa líffærin. Þá erum við um leið að taka kaleikinn frá aðstandendum okkar; reynslan sýnir að þegar þeir vita með vissu af slíkri ósk hins látna fallast þeir nær undantekningalaust á að líffærin séu fjarlægð. Mikilvægast er að fólk tali saman, að sem flestir viti um óskir hvers og eins, löngu áður en maðurinn með ljáinn ber að dyrum.

-Auglýsing-

Um helmingur Evrópuríkja hefur sett lög af einhverju tagi um ætlað samþykki og Bretar íhuga slíka lagasetningu. Í Bandaríkjunum eru lög mismunandi eftir sambandsríkjum. Rökin með ætluðu samþykki eru ljós: Læknar þurfa að bregðast snöggt við svo að líffærið skemmist ekki, biðtími eftir líffærum er langur og árlega deyja í heiminum þúsundir sjúklinga á biðlista.

Kirkjunnar menn styðja að líffæri úr látnum séu notuð ef það geti bjargað lífi annarra. Pólitísku rökin gegn ætluðu samþykki snúast aðallega um sjálfsákvörðunarrétt einstaklinga (hér aðstandenda): löggjafinn sé að ákveða fyrir þá í stað þess að spyrja álits.

- Auglýsing-

Fram hefur komið að um 40% aðstandenda hérlendis segi nei. Oft er um að ræða óöryggi, fólk veit ekki hvað hinn látni hefði viljað og finnst að þá sé best að gera ekki neitt, hrófla ekki við líkamsleifunum. Sumir hafa einhvern tíma orðið fyrir slæmri reynslu í tengslum við slík mál í öðru landi, fundist að komið væri hranalega fram við sig, t.d. krufið án þess að leitað hafi verið samþykkis þeirra. Og loks getur syrgjandi fólk verið í miklu uppnámi og illa fært um að svara.

Ýta ekki á aðstandendur
„Ég myndi fara mjög varlega með þessa tölu, að í 40% tilfella verði ekki af líffæragjöf og dreg í efa að þetta sé alltaf afdráttarlaust nei,“ segir prestur með mikla reynslu af slíkum málum. „Staðreyndin er að þegar aðstandandi hefur einhverjar efasemdir ýtir maður ekki á hann.“ En algengt sé líka að einhver spyrji hvort til greina komi að líffæri séu gefin, þannig getur það í miðri sorginni dreift huganum að sjá möguleikann á að hjálpa öðrum í neyð.

Oft geti fjölskyldan þó ekki glímt við spurninguna. Stundum þekkist aðstandendur lítið, tengsl hafa rofnað í áranna rás. Þeir þurfi því meiri tíma til að átta sig en völ sé á.

Mikill skortur er hér á landi á líffærum til ígræðslu. Allir hafa heyrt um fólk sem hefur farið út og fengið þar nýtt hjarta eða lungu. Flestir vilja vafalaust liðsinna náunganum, líka eftir dauðann. En ef til vill hefur fræðslu fyrir almenning verið ábótavant og tillagan áðurnefnda getur þá orðið til að vekja umræður á heimilum og eyða óvissu um það hvað maki eða ættingi vill.

Kristján Jónsson  kjon@mbl.is 

Morgunblaðið 04.02.2012

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-