-Auglýsing-

Maísólin á hjartadeildinni

Hallgrímskirkja séð frá hjartadeildinni.
Hallgrímskirkja séð frá hjartadeildinni.

Frá því lóurnar fyrir utan gluggann hjá okkur Mjöll byrjuðu að dirrindía og skammast yfir tíðarfarinu hér á hjara veraldarinnar hef ég verið á hjartadeildinni. Maísólin hefur skartað sínu fegursta og þrátt fyrir góðan vilja hjá frábæru hjúkrunarfólki og læknum gengur þetta frekar illa þó svo að næturnar séu lítið eitt skárri en þær voru.

Mér líður í rauninni ekki illa þegar ég held mig við rúmgaflinn og læt lítið fyrir mér fara, þó koma stundir eftir máltíðir þar sem ég fæ brjóstverki en sprengitöflur vinna kraftaverk í því að sprengja máltíðinni leið í gegnum meltingarveginn, ef svo má að orði komast.
Ég verð að játa að þetta tekur töluvert í og líklegt má telja að hvorki ég né Mjöll höfum áttað okkur á því hvað ég var orðin slæmur. Þetta hefur svona læðst aftan að okkur á nokkuð löngum tíma og smám saman hef ég haft mig minna í frammi, farið minna út, verið þreyttari, haft minna úthald og þurft að hvíla mig meira. Lífsgæði mín þar með orðin það léleg að ekki verður lengur við unað.

-Auglýsing-

Ég var spurður að því um daginn hvort þetta væri hættulegt og ég vissi ekki alveg hverju ég átti að svara, í það minnsta er þetta alvarlegt þar sem ég er hér og hef það ekki svo gott. En já alvarlegt að því leiti að lífsgæði mín eru það léleg orðin að nýtt hjarta er mín von til betra lífs eftir því sem ég og læknarnir mínir hér á landi álíta. Vonandi verða þeir á sama máli í Svíþjóð.

Samt, eins og áður sagði líður mér eiginlega ekki sérlega illa, nema öðru hvoru. Ég er hinsvegar meðvitaður um og finn fyrir því að það er mjög langt frá því að allt sé með felldu og þróttleysi, mæði og allskyns önnur óþægindi plaga mig nokkuð stöðugt og sturtuferðirnar eru erfiðar, þarf að fara mér hægt og gera stans á þvottinum reglulega til að ná andanum. Legan gerir það svo að verkum að stoðkerfið lætur vita af sér þannig að það er að mörgu að huga.
Herbergisfélaginn sem var með mér síðustu daga hresstist mikið og fór heim í fyrradag. Um helgina skemmti hann gestum og gangandi með spilagöldrum og ánægjulegt að sjá ungan mann jafna sig jafn hratt og raunin virðist vera. Hann skildi eftir sig skarð sem er vandfyllt og galdrabragðanna hans er saknað á sama tíma og honum er óskað velfarnaðar. Þess má geta að líklegt má telja að hægt verði að sjá pistla eftir hann hér á hjartalif.is.

Það ríkir semsagt hlátur og gleði hér á hjartadeildinni þó undirtónninn sé alvarlegur, það er komið vor og með vorinu kemur vonin, vonin um bjartari tíð og betri lífsgæði.

Björn Ófeigsson

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-