Ekki var rétt að því staðið þegar stjórnvöld hættu að niðurgreiða dýr blóðfitulækkandi lyf. Þetta segir lyfjafræðiprófessor. Ný rannsókn sýni að margir sjúklingar fái of litla lyfjaskammta af ódýrum lyfjum og séu í aukinni hættu á að fá hjartaáfall.
Rannsóknin var unnin af nema í lyfjafræði, Lindu Rós Björnsdóttur, meðal annars undir handleiðslu Sveinbjörns Gizurarsonar lyfjafræðiprófessors við Háskóla Íslands. Hann segir niðustöðuna sýna fram á að sú ákvörðun stjórnvalda að hætta að niðurgreiða dýrari og nýrri blóðfitulækkandi lyf hafi ekki skilað sér í jafngóðri eða betri meðferð sjúklinga.
,,Því miður að þá kom í ljós að blóðfitan hækkaði hjá flestöllum sjúklingum,“ segir Sveinbjörn. Þannig hafi þeim sem voru illa meðhöndlaðir fjölgað úr 27% í 46%.
Sveinbjörn segir að rannsóknin hafi sýnt að margir sjúklingar fái ýmist of litla lyfjaskammta eða engar leiðbeiningar um að ódýra lyfið verði að taka inn á kvöldin en ekki hvenær sem er yfir daginn eins og er í lagi með nýrra og dýrara lyfið, sem ekki er lengur niðurgreitt. Ábyrgðin liggi hjá læknum og hugsanlega apótekurum. Vandinn sé sá að sjúklingurinn finni engan mun á sér þótt blóðfitan hækki. Sveinbjörn segir að ef ekkert verði að gert aukist líkurnar á hjartaáfalli eða öðrum hjartavandamálum hjá þessum hópi sjúklinga.
Þá segir Sveinbjörn að niðurstöður rannsóknarinnar sýni fram á að ekki hafi verið staðið rétt að þeim breytingum sem nauðsynlegar voru eftir að stjórnvöld ákváðu að hætta að niðurgreiða dýrari lyf.
www.ruv.is 13.02.2011