Í grein á vefsíðu breska dagblaðsins Telegraph segir að rannsóknir danskra hjartasérfræðinga hafi leitt í ljós að reglulegt skokk geti aukið lífslíkur karlmanna um sex ár en kvenna um fimm ár. Ku nægja að skokka í klukkustund á viku til að njóta slíkra hagsbóta, en rannsóknin var gerð á 2.000 dönskum skokkurum.
Þá kom í ljós samkvæmt rannsókninni að létt skokk væri það sem vænlegast væri til að auka lífslíkur fólks, frekar en að gefa í og fara hraðar.
„Við getum með sanni sagt að reglulegt skokk auki lífslíkur og góðu fréttirnar eru þær að þú þarft ekki að gera svo mikið,“ segir hjartalæknirinn Peter Schnohr sem fór fyrir rannsókninni, en rannsóknin leiddi í lós að karlkyns skokkarar sem eyddu frá einum klukkutíma til tveggja og hálfs tíma á viku í að skokka, tvisvar eða þrisvar, lifðu að meðaltali 6,2 árum lengur en þeir sem enga líkamsrækt stunduðu. Kvenkyns skokkarar sem stunduðu svipaða hreyfingu lifðu hins vegar að meðaltali 5,6 árum lengur.
Það var teymi lækna og vísindamanna við hjartarannsóknarstöðina í Kaupmannahöfn sem gerði rannsóknina sem hófst árið 1976, en frá þeim tíma hafa um 20.000 manns á aldrinum 20-93 ára verið rannsakaðir. Voru þátttakendur meðal annars spurðir út í það á hve miklum hraða þeir hlypu.
Morgunblaðið 08.05.2012