-Auglýsing-

Krýsuvíkurleið til hjartalæknis

LEIÐ hjartasjúklings til hjartalæknis er hvorki bein né breið. Til þess að Tryggingastofnun ríkisins (TR) endurgreiði sjúklingi sinn hluta þjónustunnar þarf hjartasjúklingur fyrst að leita til heimilis- eða heilsugæslulæknis (HH) og fá hjá honum svokallaða tilvísun. Síðan borgar hann þjónustu hjartalæknisins að fullu. Loks fer hann með tilvísun og reikning hjartalæknisins til TR til að fá endurgreiðslu. Sem sagt þrjár ferðir í stað einnar með þeim óþægindum og kostnaði sem því að sjálfsögðu fylgir.

Hvenær endar þessi vitleysa?
Þetta er fyrsta spurning nær allra hjartasjúklinga sem til okkar hjartalækna leita. “Þessi vitleysa” er reglugerð sem heilbrigðisráðherra gaf út 1. apríl 2006. Þessi reglugerð átti að hafa þann tilgang að takmarka aðgang hjartasjúklinga að hjartalæknum en beina þeim þess í stað til HH. Það var mat heilbrigðisráðherra að 65% af verktakagreiðslum sem runnu til hjartalækna árið 2004 mætti rekja til þjónustu sem hægt væri að veita á viðunandi hátt á heilsugæslustöð. Lítum nú á reglugerðina. Einungis HH mega skrifa tilvísun. Með þessu er verið að takmarka lækningaleyfi annarra sérfræðinga sem að sjálfsögðu þurfa oft að senda til okkar sjúklinga. Reglugerðin gerir ekki ráð fyrir neinni undantekningu jafnvel þótt um bráðatilvik sé að ræða og þannig tilvik koma daglega upp. Sjúkratryggðir einstaklingar greiða ekkert gjald fyrir tilvísun en sjúklingur greiðir fyrir viðtal og skoðun hjá HH. Nú hefur komið í ljós samkvæmt fréttum frá TR um áramót að kostnaðarmat við komu einstaklings á heilsugæslu er 6.100 kr. Af þeirri upphæð greiðir sjúklingur sjálfur 700 kr. Þannig að 5.400 kr. falla í hlut ríkisins. Viðtal og skoðun hjá hjartalækni er hins vegar 4.661 kr. Að auki er innheimt hjá hjartalækni gjald fyrir rannsóknir, s.s. línurit, áreynslupróf, ómskoðanir, Holterrannsóknir o.s.frv. eins og við á hverju sinni. Gildistími tilvísunar skal aldrei vera lengri en 4 mánuðir í senn. Hjartasjúkdómar eru langvinnir og margir sjúklingar þurfa á ævilöngu reglulegu eftirliti að halda. Að jafnaði koma sjúklingar tvisvar á ári til eftirlits og meðferðar sem þýðir að þeir þurfa að afla sér til tilvísunar fyrir hverja komu. Fjöldi sjúklinga hefur engan HH. Þeir verða því annað hvort að borga þjónustu hjartalæknisins að fullu sjálfir eða þá leita á Læknavaktina þar sem mjög líklegt er að þeir hitti fyrir lækni sem ekkert þekkir til þeirra. Nú er spurning hvert “þessi vitleysa” sem sjúklingur kalla reglugerðina stenst lög t.d. lög um almannatryggingar, lög um atvinnuréttindi og hvort jafnræðisregla stjórnsýslulaga sé brotin.

-Auglýsing-

 Af hverju var ekki samið við hjartalækna?
Þetta er önnur spurning sem margir hjartasjúklingar bera upp. Samningaviðræður stóðu í marga mánuði seinnihluta árs 2005. TR vildi einungis borga þann einingafjölda sem um hafði verið samið en af fjölmörgum ástæðum sem tíundaðar hafa verið í fyrri greinum og vel rökum studdar í samningaviðræðum varð framúrkeyrsla töluverð og kom engin greiðsla frá TR til hjartalækna síðustu tvo mánuði ársins 2005. Þessa mánuði veittu hjartalæknar fulla þjónustu sem fyrr án tekna en greiddu fullan rekstrarkostnað. Það sem vantaði á að gengið yrði að öllum okkar kröfum var því hluti TR sem var 14 millj. sem skipst hefðu á milli 23 hjartalækna fyrir allt árið 2005. TR bauð hins vegar 10% af þeirri upphæð. Það er rétt að rifja upp að um 30 þúsund komur eru til hjartalækna árlega og tugþúsundir samskipta við sjúklinga símleiðis og bréfleiðis. Fyrir þessa þjónustu borgar TR öllum hjartalæknum samtals um 100 millj. árlega sem er um það bil 2/3 af heildarkostnaði við þjónustu við hjartasjúklinga utan sjúkrahúsa. Svipuð deila og á milli TR og hjartalækna kom upp milli TR og bæklunarlækna, augnlækna og svæfingalækna. Hún var leyst á sama hátt og hjartalæknar lögðu til í samningaviðræðum við TR 2005, þ.e. að bætt væri við einingarkvótann. Tugum milljóna hefur nú verið bætt við kvóta ofangreindra sérfræðinga.

 Réttlæting tilvísunarkerfisins
Ég er sammála þeirri hugmyndafræði að sjúklingur leiti að jafnaði fyrst til HH með sín vandamál. Þegar hins vegar alvarlegur sjúkdómur eins og hjartasjúkdómur greinist finnst mér að þeir sem bestu menntun, þekkingu og reynslu hafa ættu að sinna sjúklingnum. Það eina sem ef til vill réttlæti heftan aðgang að sérfræðiþjónustu væri of mikill kostnaðarauki fyrir heilbrigðiskerfið er svo er aldeilis ekki raunin á Íslandi.

- Auglýsing-

Árið 2006 var aukning koma til hjartalækna 3-4% en spáð hafði verið fækkun allt að 65%. Um 80% sjúklinga koma með tilvísun. Það er því ekki flókið að reikna út að tilvísunarkerfið kostar þjóðfélagið tugi milljóna. Er þá ekki reiknaður til peninga sá tími sem þrjár ferðir í stað einnar kostar.

Heilbrigðisráðherra virðist ekki sjá það ranglæti sem hjartasjúklingar eru beittir. Hún heyrir ekki rök Félags hjartasjúklinga eða Félags eldri borgara þrátt fyrir að þessir hópar hafa ítrekað reynt að ná eyrum hennar. Þótt hart hafi verið deilt á tilvísunarkerfið í ræðu og riti hef ég ekkert heyrt eða séð frá heilbrigðisráðherra í tæpt ár sem réttlætti þetta kerfi enda þögn beittasta vopn þeirra sem verja vondan málstað.

Höfundur er Ásgeir Jónsson hjartalæknir.

Greinin birtist í Morgunblaðinu 05.03.2007

-Auglýsing-
-Auglýsing-

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-