Að drekka of mikið af kóladrykkjum getur valdið alvarlegum hjartavandamálum. Þetta segja vísindamenn við háskólann í Ioannina á Grikklandi. Gosdrykkir með miklu magni af sykri hafa áður verið tengdir við offitu, tannskemmdir og beinþynningu.
Nú telja vísindamenn að hægt sé að tengja hjartaáföll og vöðvalömun við of mikið þamb á kóladrykkjum. Telja vísindamenn að magn kalíums í blóði minnki verulega sem geti valdið óreglulegum hjartslætti og í einhverjum tilfellum hjartaáfalli.
Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að fylgst var með 21 árs gömlum manni sem drakk þrjá lítra af kóladrykkjum á dag. Hann fékk hjartaáfall en náði fullri heilsu eftir að hann hætti drykkjunni og tók kalíumtöflur.
Doktor Moses Elisaf, vísindamaður sem kom að rannsókninni, segir að svo virðist sem líkaminn losi sig við kalíum úr líkamanum þegar drukkið er mikið magn af gosi. Hann segir það vera viðbrögð líkamans við miklum sykri og kaffeini.
Hagsmunaaðilar gosdrykkjafyrirtækja segja að í rannsókninni séu tekin mjög ýkt dæmi. Fólk geti drukkið sykraða gosdrykki áfram án þess að hafa miklar áhyggjur af heilsunni.
www.dv.is 20.05.2009