Það hefur aldrei verið hugmyndin að gera hjarta.net að pólitískum vettvangi. Það er þó þannig að ákvarðanir og stundum ályktanir stjórnmálamanna eru áhugaverðar og þessvegna ætla ég að birta eina af bloggfærslum Össurar Skarphéðinssonar og vangaveltur hans um heilbrigðiskerfið. Þessi færsla birtist á eyjunni.is :
Það skiptir ekki máli hvernig kötturinn er á litinn svo fremi hann veiðir mýs. Þessi orð hins gengna kínverska kommúnistaleiðtoga, Deng Hsiao Ping, nota ég gjarnan þegar rætt er um rekstrarform heilbrigðisþjónustunnar. Stefna okkar í Samfylkingunni er skýr.Við viljum öfluga heilbrigðisþjónustu, sem allir hafa jafnan aðgang að, án þess að efnahagur nokkurs komi í veg fyrir að hann hafi sömu möguleika á fyrsta flokks þjónustu og sérhver annar. Það þýðir, að aðgangur að heilbrigðiskerfinu á að vera óháður efnahag. Það er jafnaðarmennska. Fái notendur kerfisins fyrsta flokks þjónustu sem greidd er af sameiginlegu fé skattborgaranna, án þess að efnahagur hins fátækasta hindri hann í að njóta þjónustunnar, þá er markmiði mínu sem jafnaðarmanns náð.
Þá gildir mig einu, hvort þjónustan er boðin út á vegum ríkisins til félagasamtaka, einsog heildar deildir hafa verið reknar af við góðan orðstír, eða fyrirtæki fái að reka deildir, svo fremi greiðandinn sé ríkið, sem semji um eðlilegt verð fyrir hönd skattborgaranna, og hinir öldruðu, smáu og hrjáðu eigi jafnan kost á aðgangi á við auðmennina. Það er jafnaðarmennska, því þá er séð fyrir frumþörfum borgaranna án þess að efnahagur þeirra leiði til stéttskiptrar þjónustu. Markmið okkar sem stjórnmálamanna hlýtur að vera fjórþætt: Tryggja fyrsta flokks heilbrigðisþjónustu, lágmarka kostnað án þess að rýra gæðin, búa svo um hnúta að ríkið fjármagni reksturinn og kaupi þá hugsanlega þjónustu af samtökum, fyrirtækjum eða einstaklingum í gegnum útboð sem velja úr hagkvæmustu lausnina fyrir heildina,- og tryggja að allir eigi, óháð efnahag aðgang að þjónustunni án tillits til efnahags. Efnislega þýðir þetta að Jón gamli í kjallaranum á Vesturgötunni sem lifir af ellistyrknum sínum og svolitlum lífeyri frá sjómannafélaginu fái sömu þjónustu og sama aðgang og Jón Ásgeir og Björgólfur Thór þegar þeir þurfa að leita á náðir kerfisins. Í slíku kerfi geta menn ekki keypt sig framfyrir í krafti auðs. Þetta er jafnaðarstefna í framkvæmd, og ég fæ ekki betur séð en þessi stefna Samfylkingarinnar, sem ég mótaði öðrum fremum ásamt Ágústi Ólafi Ágústssyni og Einari Karli Haraldssyni og fékk samþykktaá landsfundi 2005 sé orðin að stefnu ríkisstjórnarinnar.Hún stefnir vissulega að útboðum á rekstri deilda, og stórkaupum á tilteknum aðgerðaflokkum. Það breytir engu um verðstefnuna sem verður hin sama og áður. Í því felst að hið gagnkvæma tryggingafélag sem borgararnir eru aðilar að gegnum skattgreiðslur til ríkissjóðs sér til þess að allir greiða sama lága verðið. Verðinu er stillt í algert lágmark, þannig að í reynd er það ríkissjóður og skattgreiðendur sem saman standa straum af því þegar borgararnir þurfa að notfæra sér þjónustu heilbrigðiskerfisins til að lækna mein og bæta heilsu. Ég er því fylgjandi einkarekstri í heilbrigðismálum en er hins vegar á móti einkavæðingu, sem fæli í sér heimild til að setja upp einkaspítala í hagnaðarskyni, þar sem borgararnir þyrftu að greiða raunkostnað – sem í reynd myndi skapa stéttskipta heilbrigðisgæslu Þannig er það í tannlæknageiranum, og engum blöðum að fletta, að fjárhagsleg staða foreldra hefur áhrif á tannheilsu barna þeirra. Þessvegna ætti að flytja tannlæknaþjónustu barna upp að átján ára aldri alfarið undir ríkið. Besta nýjungin sem hefur komið fram um langan aldur fyrir barnafólk er Læknavaktin. Þangað getur örvæntingarfullur faðir með fársjúkt barn leitað og fengið á stuttum tíma líkn við þraut barns síns. Gildir þá einu hvort um kvilla eða slys er að ræða. Stjórnmálamenn sem leggjast í hávaðasaman víking gegn þessari jafnaðarstefnu gera það af einhverjum allt öðrum hvötum en umhyggju fyrir peningum skattborgaranna eða þörfum sjúklinga. Þeir eru meira að hugsa um úrelt viðhorf einsog í hvaða stéttarfélagi viðkomandi starfsmenn eiga að vera, eða lúta svo lágt að reyna að slá keilur tortryggni til að skora billega púnkta í kappræðu dagsins.
-Auglýsing-
Það er sama hvernig kötturinn er á litinn ef hann veiðir mýs. Það er því sama hvort er um að ræða einkarekstur eða ríkisrekstur á einstökum þáttum heilbrigðiskerfisins, svo fremi ekki sé brotin regla hins stéttlausa samfélags um aðgang allra óháð efnahag.
www.eyjan.is 14.03.2008
-Auglýsing-