Jónas hafði skrifað pistil tveim dögum áður sem var deilt einum 550 sinnum á FB. Það varð honum því hvatning að halda áfram skrifunum, þar sem hann hafði verið fluttur á eins manns “rými”.
6. júní 2013
Eina loforðið sem ég gaf nokkrum vinum mínum þegar ljóst var að ég yrði kyrrsettur á Landsspítalnum var að ég myndi taka Facebook í mína þjónustu og lofa mönnum að fylgjast með mér. Aldrei hefði mig samt grunað að ég fengi önnur eins viðbrögð og ég fékk við pistlinum í fyrradag.
Þegar leið á daginn í gær tók ég eftir að starfsfólkið á deildinni var eittvað að pískra sín á milli og svo heyrði ég: “Það er hann”, svona eins og þegar löggan er að koma upp um bófa í amerískri bíómynd. Augnablik datt mér í hug að breiða sængina upp fyrir höfuð, en svo náði mitt rétta eðli yfirhöndinni, ég gaf mig fram og átti gott spjall við fólkið.
Varla var þetta góða starfsfólk búið að snúa sér við þegar aðrir komu og tilkynntu mér að ég ætti að flytjast á aðra deild. Ég vissi svo sem að það stæði til, en þegar
ég heyrði konuna segja að “hún væri að fara niður með manninn með pistilinn” runnu á mig tvær grímur, þetta hljómaði eins það væri verið að fjarlægja mann með illvígan og ólæknandi sjúkdóm.
Mér var sem sagt trillað niður á skurðdeild þar sem ég mun dvelja næstu eina til tvær vikur. Á meðan mér, fullfrískum manninum var ýtt milli deilda í hjólastól (!) fór
ég að spá í viðtökurnar á nýju deildinni. Fólkið þar vissi örugglega að nú kæmi “maðurinn með pistilinn” og það þyrfti að gera vel við hann. Það vantar svo sem ekki að móttökurnar voru frábærar, húsnæðið á deildinni í mun betra standi en þar sem ég var áður. Þrengslin blasa þó við og ég hætti fljótlega að gera mér vonir um eins manns herbergi. En viti menn, ég var settur einn á stofu.
Stofan mín er að vísu stór, ónúmeruð tækjageymsla, en eins og starfsfólkið segir, þá er miklu meira næði þar inni en frammi á gangi. Jafnvel huggulegra en hjá
sjúklingnum sem býr inni í matsalnum við enda gangsins. Það vantar svo sem ýmislegt á stofuna mína, svo sem skáp, spegil og sjónvarp, en það má nú ýmsu fórna til að vera í góðu næði. Sakna þess mest að geta ekki breytt stellingum á rúminu nema með handafli, en því hefur mér verið bannað að beita. Ef þið komið í heimsókn þýðir því ekkert að spyrja um stofunúmer, betra að finna hjartaskurðdeildina og spyrja þar um “manninn með pistilinn!”
Ég spurði raunar aðeins um tilvist þessarar stóru og flottu geymslu á miðri deildinni. Skýringin – þetta átti að vera eins konar “minigjörgæsla” og þegar menn kæmu úr aðgerðum yrði þar fyrsta stoppið. Mikilvægt að létta á gjörgæslunni sem oft er flöskuháls hvað varðar aðgerðir á stofnuninni. En það fást ekki peningar til að klára að dæmi með tækjum sem til þarf og svo kostar þetta væntanlega aðeins öðru vísi mönnun á deildinni. Enn eitt dæmið sem ég rekst á hér á bæ um hluti sem sem auðvelt væri að laga.
Kristján Þór Júlíusson – ég er búinn að frétta að þú sért á leiðinni hingað í dag og ætlir þér heila 4 klukkutíma til að kynna þér starfsemina og skoða húsin. Ég skora
á þig að koma í heimsókn til mín í tækjageymsluna, ég get boðið þér sæti á einhverjum stólnum og sótt handa þér kaffi. (Ég treysti því að einhver deili þessu á
Kristján, ég held hann sé ekki FB-vinur minn, þótt hann sé alls ekki óvinur minn).
Af því ég veit að einhverjir halda örugglega að ég sé ekki að segja satt um tækjageymsluna, þá er ég búinn að taka myndir, en því miður kem ég þeim ekki af vélinni inn á tölvuna. Læt samt fylgja eina lélega mynd sem ég tók á tölvuna mína, en það má sjá í rúmið mitt í baksýn.
Lífið gengur sinn gang í tækjageymslu Landsspítalans
8. Júní 2013
Það er fátt að frétta af mér þessa dagana. Ég er búinn að koma mér ágætlega fyrir í tækjageymslunni, nóg pláss fyrir dótið mitt á borðum og stólum. Svo eru þessir fínu fatastandar til hengja upp á, einhverjar háar græjur á hjólum með fjórum snögum efst. Hjúkrunarfólkið kemur raunar stundum og fær fatahengin lánuð hjá mér og svo sé sjúklinga ýta þeim á undan sér um gangana full af slöngum og dóti. Svolítið ónæði er líka og glamur þegar starfsfólkið er að leita að réttu rúmgöflunum í stórri hrúgu af því sem ég hélt að væri brotajárn í einu horninu. Þetta fannst mér svolítið pirrandi á nóttunni til að byrja með en venst ágætlega.
Svo er það stór kostur að hingað inn í geymsluna koma aldrei þær einu starfsstúlkur sem ég er ekki alveg sáttur við – það eru stelpur sem birtast öðru hverju og bleyta gólfin í hinum stofunum. Um það leyti sem vatnið hefur náð að losa óhreinindin af gólfinu eru þær horfnar aftur og skilja eftir þessa léttu blöndu vatns og skíts. Þetta er víst kallað að skúra, en einhvern veginn virðist það hugtak merkja annað en ég er vanur úr Menntaskólanum á Akureyri. Bið ég rosalega vel að heilsa “bláa skúringahernum” okkar og vona að haldið verði sem lengst í þeirra skilning á umræddu hugtaki! Ég gerði raunar tilraun til að kenna einni stelpunni vinnubrögð og benti henni á að færa tölvutöskuna mína í stað þess bleyta allt í kringum hana. Komst ég þá að því mín tungumálakunnátta náði ekki nógu langt í austur til að útskýra svona flókinn hlut í daglega lífinu.
Ekki hefur Kristján Þór Júlíusson enn komið til mín í kaffi, en ég á nú eftir að liggja hér í svo sem 10 daga enn. Kannski hann skjótist einhvern daginn.
Jónas