-Auglýsing-

Kólesteról: Hvað er “non-HDL kólesteról”?

 

Blóðprufa
Blóðprufa

Fræðin um kólesterólið, hvað er í lagi og hvað ekki virka flókin á mjög marga. Axel F. Sigurðsson hjartalæknir sem heldur úti mataraedi.is og www.docsopinion.com fer hér yfir það helsta og útskýrir “non-HDL-kólesterólgildi” sem virðist segja meira um áhættuna en hinar hefðbundnu tölur sem við flest þekkjum, en gefum Axel orðið.

-Auglýsing-

Ef þú lætur mæla blóðfiturnar þínar er leikur einn að reikna út “non-HDL-kólesteról”. Þetta gildi segir oft meira um hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum en hefðbundin gildi eins og heildarkólesteról eða hið svokallaða “vonda” kólesteról.

Þrátt fyrir þetta sýndi nýleg bandarísk rannsókn að þar í landi kunna 44 prósent lækna ekki að reikna út “non-HDL-kólesteról”. Hvort íslenskir læknar standa bandarískum kollegum sínum framar hvað þetta varðar skal látið ósagt.

Algengt er að stuðst sé við mælingar á blóðfitu þegar verið er að meta hættuna á að við fáum hjarta-og æðasjúkdóma. Þegar blóðfitur eru mældar er oftast mæld heildarþéttni kólesteróls í bóði, auk þéttni HDL-kólesteróls og þríglýseríða. Svokallað LDL-kólesteról er síðan reiknað út frá þessum tölum samkvæmt sérstakri formúlu.

Lípóprótín

- Auglýsing-

Fita er ekki vatnsleysanleg. Til þess að fita geti ferðast um í blóðinu er henni pakkað inn í svokölluð lípóprótín sem samanstanda af prótínum og mismunandi gerðum fitu.

Líkaminn framleiðir margar mismundandi gerðir lípóprótina. Sum þeirra hafa tilhneigingu til að leita inn fyrir æðaþel slagæðanna og inn í æðavegginn þar sem þau virðast stuðla að sjúkdómsferli (atherosclerosis) sem oft leiðir til slagæðasjúkdóma. Önnur lípóprótín virðast hins vegar hafa verndandi áhrif og gegna mögulega einhvers konar hreinsihlutverki. Dæmi um þetta er HDL (high density lípóprótín).

Þéttni kólesteróls í blóði segir til um heildarmagn kólesteróls sem bundið er í lípóprótínum. Slík mæling segir ekki til um fjölda lípóprótína né magn þeirra. Hins vegar er hægt er að mæla fjölda lípóprótina (LDL-P) og benda ýmsar rannsóknir til að sú mæling hafi meira forspárgildi um hættuna á hjarta-og æðasjúkdómum en mælingar á kólesteróli. Þessar mælingar eru þó ekki enn gerðar hér á landi.

LDL kólesteról

Þegar blóðfitur eru mældar er oftast horft mest á LDL-kólesteról við mat á hættunni á hjarta-og æðasjúkdómum. Jafnframt er LDL-kólesteról það gildi sem oftast er leitast við að lækka því fjöldi rannsókna hefur sýnt fylgni á milli magns LDL-kólesteróls í blóði og hættunnar á hjarta-og æðasjúkdómum. Leiðbeiningar um mataræði til að draga úr hættu á kransæðasjúkdómi beinast því oft að því að ná fram lækkun á LDL-kólesteróli.

LDL-kólesteról gefur til kynna hversu mikið kólesteról er bundið í LDL (low density lipoprotein). Svo virðist sem LDL gegni lykilhlutverki í tilurð hjarta-og æðasjúkdóma. Hins vegar er ljóst að mörg önnur lípóprótín koma þar einnig við sögu. Því hafa margir sérfræðingar bent á að mælingar á LDL-kólesteróli endurspegli einungis að hluta til þau lípóprótín sem stuðla að æðasjúkdómum. Æskilegt væri að styðjast við mælingu sem endurspeglar þéttni allra lípóprótína sem ýta undir þetta sjúkdómsferli.

LDL-kólesteról er ekki mælt, heldur er það reiknað út frá mælingum á heildarmagni kólesteróls, HDL-kólesteróli og þríglýseríðum. Ekki er hægt að nota reikniformúluna ef magn þríglýseríða er hátt. Því kann notagildi LDL-kólesteróls að vera minna hjá einstaklingum með offitu eða efnaskiptavillu því þessir einstaklingar hafa oft hátt magn þríglýseríða í blóði og lágt HDL-kólesteról. LDL-kólesteról getur reiknast lágt við þessar kringumstæður þótt heilmikið sé til staðar af lípóprótínum sem ýta undir hættuna á hjarta-og æaðsjúkdómum.

Non-HDL kólesteról

- Auglýsing -

LDL og HDL lípóprótínin gegna mjög ólíku hlutverki. Mælingar á LDL- og HDL-kólesteróli segja því í raun sitt hvora söguna. Hátt LDL-kólesteról tengist aukinni hættu á hjarta-og æðasjúkdómum á meðan hátt HDL-kólesteról tengist minni hættu á hjarta-og æðasjúkdómum. Þess vegna er LDL-kólesteról oft kallað “vonda” kólesterólið og HDL-kólesteról oft kallað “góða” kólesterólið.

Svo virðist sem HDL hafi hreinsihlutverk og taki þátt í að flytja kólesteról frá æðavegnum á meðan LDL virðist hreinlega ýta undir sjúkdómsferlið.

Mæling á heildarkólesteróli hefur takmarkað gildi til að meta áhættu því verið er að mæla kólesteról sem bæði er bundið LDL og HDL. Hins vegar er á einfaldan hátt hægt að draga magn HDL-kólesteróls frá heildarmagni kólesteróls. Það gildi sem þá fæst kallast “non-HDL-kólesteról”. Þetta gildi endurspeglar magn kólesteróls sem bundið er lípóprótínum sem ýta undir sjúkdómsferli í slagæðunum. Rannsóknir benda til þess að non-HDL kólesteról hafi meira forspárgildi varðandi hjarta-og æðasjúkdóma en hefðbundnari mæligildi.

Non-HDL kólesteról er heildarkólesteról mínus HDL-kólesteról 

Þetta er reikniformúlan: 

Non-HDL kólesterol = Kólesteról – HDL-kólesterol

Ef kólesterólið þitt er 5.7 mmol/L og HDL-kólesterólið 1.3 mmol/L, 
þá er non-HDL kólesterólið þitt 4.4 mmol/L

Hvað eru æskileg gildi fyrir non-HDL kólesteról?

  • Hærra en 5.7 mmol/L er alltof hátt
  • 4.9 – 5.6 mmol/L er of hátt
  • 4.1 – 4.8 mmol/L er vægt hækkað
  • 3.4 – 4.0 mmol/L er í fínu lagi
  • lægra en 3.4 mmol/L er æskilegt ef þú hefur mikla áhættu á hjarta-eða æðasjúkdómum
  • lægra en 2.6 mmol/L er æskilegt ef þú ert með þekktan hjarta-eða æðasjúkdóm

Hvernig er hægt að lækka non-HDL kólesteról?

Til að ná fram lækkun á non-HDL kólesteróli er áhrifaríkast að ástunda lífsstíl og mataræði sem lækkar þríglýseríða og hækkar HDL-kólesteról. Ef þú ert of þung/þungur er skynsamlegt að draga úr neyslu sykurs og annarra unninna kolvetna. Einnig skaltu forðast transfitu og stilla neyslu á mettaðri fitu í hóf.

Fæða sem inniheldur mikið af omega-3 fitusýrum er oft gagnleg. Dæmi um slíka fæðu er feitur fiskur eins og lax, silungur, síld, túnfiskur og makríll. Omega-3 fæðubótarefni eru einnig valkostur.

Ef allt um þrýtur er hægt að beita lyfjameðferð til að lækka non-HDL kólesteról.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-