-Auglýsing-

Hvaða áhrif hefur Covid-19 á líkama okkar?

Þó svo að hægst hafi verulega á covid faraldrinum er hann samt sem áður flokkaður sem heimsfaraldur og mælt með reglulegum bólusetningum hjá þeim sem eru yfir 60 ára og/eða með undirliggjandi sjúkdóma.

Nú þegar mesti hasarinn í Covid-19 faraldrinum virðist liðinn hjá í bili eru afleiðingar sjúkdómsins bæði til skemmri og lengri tíma og koma sífellt betur í ljós. Einnig er rétt að hafa í huga að fólk er enn að veikjast af Covid og jafnvel alvarlega. Hinsvegar virðist ljóst að bólusetningar hafa komið í veg fyrir alvarleg veikindi og bjargað mörgum mannslífum.

Hér að neðan má finna útskýringar á mögulegum áhrifum Covid-19 á hjarta og æðakerfi og hvað eigi að gera ef einkenni eins og hraður hjartsláttur eða hjartsláttarónot gera vart við sig eftir Covid-19 sýkingu.

-Auglýsing-

Eru tengsl á milli Covid-19 og hjartavandamála?

Nýleg bresk rannsókn, sem birt var í tímaritinu Cardiovascular Research í janúar 2023, fylgdi eftir 7.500 manns, með og án undirliggjandi hjartasjúkdóma, sem fengu Covid-19 á tímabilinu mars til nóvember 2020 (áður en bóluefni var fáanlegt í Bretlandi).

Í samanburði við einstaklinga sem ekki höfðu fengið veiruna voru þeir sem smitast höfðu af Covid 40% líklegri til að þróa með sér hjarta- og æðasjúkdóma og fimm sinnum líklegri til að deyja á næstu 18 mánuðum á eftir. Áhættan var enn meiri á meðal þeirra sem veikst höfðu alvarlega.

- Auglýsing-

Þeir sem veikst höfðu af Covid voru bæði í meiri hættu á að þróa með sér eftirfarandi hjarta- og æðasjúkdóma til skamms og langs tíma:

  • Hjartaáföll
  • Kransæðasjúkdóma
  • Hjartabilun
  • Djúpbláæðasega (DVT)

Áhætta á heilablóðfalli og gáttatifi var einnig meiri til skamms tíma en ekki til langs tíma.

Hvaða áhrif getur Covid-19 haft á hjarta og æðakerfi?

Covid-19 getur haft margvísleg áhrif á hjarta og æðakerfi. Það getur til dæmis leitt til hraðari hjartsláttar, gáttatifs, blóðtappa, hjartaskemmda vegna súrefnis- og næringarskorts, bólgu í hjartavöðva og gollurshúsi og Takotsubo heilkennis (broken heart syndrome).

Mörg þeirra einkenna sem fólk upplifir eru talin orsakast af því að Covid skaðar æðaþelið (innstu himnu æða í líkama okkar). Allir hlutar líkamans þurfa heilbrigt blóðflæði til að virka sem skyldi – æðaskemmdir geta leitt til óeðlilegrar blóðtappamyndunar, „lekra“ æða, minnkaðs blóðflæðis um allan líkama og margvíslegra einkenna.

Þetta getur skýrt hvers vegna fólk með undirliggjandi hjarta- og æðasjúkdóma er í meiri hættu á að fá fylgikvilla í kjölfar Covid þó að veiran geti vissulega einnig valdið hjarta- og æðasjúkdómum hjá áður heilbrigðum einstaklingum. Margt er enn óljóst og við erum enn að læra um áhrif Covid á heilsuna samhliða framkvæmd nýrra rannsókna.

Hraður hjartsláttur og hjartsláttarónot eftir Covid-19

Covid-19 getur valdið hröðum eða óreglulegum hjartslætti. Ástæðan er sú að hjartað þarf að erfiða meira við að dæla blóði um líkamann þegar líkaminn er að berjast við hita og bólgu sem fylgir veirunni.

Hjartsláttarbreytingar geta einnig orsakast af öðrum þáttum, þar á meðal ofþornun, kvíða, lyfjanotkun og öðrum heilsufarsvandamálum.

Hjartsláttarónot eiga sér stað þegar þú verður var við hjartsláttinn og skynjar hann jafnvel sem óvenju þungan eða óreglulegan. Hjartsláttarónot eru yfirleitt ekki áhyggjuefni en gott er að leita til læknis ef þú upplifir mikil óþægindi, þau standa yfir í langan tíma, lagast ekki eða versna, eða ef þú hefur sögu um hjartavandamál.

Vísindamenn eru enn að rannsaka hvers vegna fólk getur fundið fyrir hjartsláttarbreytingum eftir Covid en talið er að það geti stafað af ónæmissvörun líkamans og áhrifa hennar á ósjálfráða taugakerfið (frekar en á hjartavöðvann sjálfan). Ósjálfráða taugakerfið er sá hluti taugakerfisins sem alltaf er að og stjórnar nauðsynlegum líkamsferlum, líkt og blóðþrýstingi, hjartslætti og öndun.

Hringdu í 112 ef þú finnur fyrir brjóstverk, svimatilfinningu eða dettur út samhliða hjartsláttarónotum eða hröðum hjartslætti.

- Auglýsing -

Blóðtappar

Fólk sem verður alvarlega veikt af völdum Covid-19 er í meiri hættu á að fá blóðtappa. Talið er að það sé vegna æðaskemmda, annaðhvort af völdum veirunnar eða vegna ónæmissvörunar líkamans við henni. Blóðtappar geta valdið alvarlegum vandamálum líkt og djúpbláæðasega, blóðtappa í lungum (lungnablóðreki), hjartaáfalli og heilablóðfalli.

Skortur á súrefni og næringarefnum getur valdið skemmdum á hjarta

Covid-19 getur valdið hita og bólgu, sem valda auknu álagi á hjartað á meðan líkaminn berst við sýkinguna. Hraður eða óreglulegur hjartsláttur getur gert vart við sig vegna þessa.

Ef Covid sýkingin er nógu alvarleg til að skaða starfsemi lungnanna getur það dregið úr súrefnismagni til hjartans. Þar sem veiran og ónæmissvörun gegn henni geta einnig skaðað frumurnar sem umlykja æðarnar okkar getur blóðtappi myndast í æðum sem dæla súrefnisríku blóði til lungnanna og þar af leiðandi takmarkað magn súrefnis og næringarefna sem skila sér til hjartans.

Aukaálag á hjartað og skortur á súrefni og næringarefnum getur valdið skemmdum á hjartavöðvanum. Vitað er að sjúklingar sem leggja hefur þurft inn vegna alvarlega Covid einkenna og hafa hlotið skemmdir á hjartavöðva eru í meiri hættu á að deyja.

Í tilfelli sumra sjúklinga hefur hjartaómskoðun sýnt fram á að hjartað dæli ekki eins vel og það ætti að gera (hjartabilun).

Ekki er alltaf ljóst hvort skaðinn hafi þegar verið skeður, en margir vísindamenn telja að veiran geti skaðað starfsemi hjartavöðva.

Ljósi punkturinn er að rannsókn sem fjármögnuð var af Britisth Heart Foundation (BHF) og birt í læknatímaritinu Journals of the American College of Cardiology í maí 2021 leiddi í ljós að ekki virðast vera tengsl á milli vægra Covid sýkinga og varanlegra hjartaskemmda.

Bólga í hjartavöðva og gollurshúsi

Covid-19 getur valdið bólgu í hjartavöðva og gollurshúsi. Slík bólga getur þó einnig orsakast af öðrum veirusýkingum.

Rannsókn sem framkvæmd var af vísindamönnum við BHF Cardiovascular Research Centre við University of Glasgow og birt í maí 2022 leiddi í ljós að 1 af hverjum 8 einstaklingum sem lagðir voru inn á sjúkrahús vegna Covid-19 greindust síðar með hjartavöðvabólgu. Niðurstöður rannsóknarinnar benda einnig til þess að til viðbótar við hjartavöðvabólgu geti alvarleg Covid tilfelli valdið nýrnaskemmdum og bólgu víðsvegar um líkamann.

Rannsóknin, sem fylgdi eftir 159 einstaklingum sem lagðir voru inn á sjúkrahús á tímabilinu maí 2020 til mars 2021, sýndi fram á að hættan á hjartavöðvabólgu var mun hærri á meðal þeirra sem veiktust alvarlega (þurftu á öndunarvél eða meðferð á gjörgæslu að halda).

Næstum allir sjúklingar sem tóku þátt í þessari rannsókn voru óbólusettir og þar af leiðandi í meiri hættu á að veikjast alvarlega af Covid-19. Rannsóknin var framkvæmd áður en Ómíkron-afbrigði veirunnar fannst í Bretlandi, en vitað er að það veldur almennt mildari einkennum.

Í upphafi heimsfaraldursins töldu vísindamenn hjartavöðvabólgu geta stafað af því að veiran réðist beint á frumur í hjartavöðvanum en með aukinni þekkingu á veirunni telja margir vísindamenn nú að þessi áhrif á hjartað stafi af því að ónæmissvörun líkamans við veirunni sé of harkaleg.

Vísindamenn við University of Cambrigde hafa til að mynda rannsakað hvernig cytokine (sameindir sem frumur í ónæmiskerfinu nota til að miðla upplýsingum sín á milli og vitað er að hafa áhrif á bólgu) sem til staðar er í blóði Covid smitaðra einstaklinga geti komið í veg fyrir að frumur í hjartavöðvanum starfi sem skyldi.

Þó margir hljóti milda og einkennalausa hjartaáverka geta alvarleg tilfelli valdið mæði, brjóstverkjum eða hjartsláttartruflunum. Ef þú finnur fyrir einhverjum þessara einkenna skaltu leita til læknis.

Takotsubo heilkenni (broken heart syndrome)

Takotsubo heilkenni, oft tengt við ástarsorg, á sér stað þegar vinstra dæluhólf hjartans breytir um lögun og stækkar. Þessar breytingar eru oft afleiðing tilfinningalegs áfalls eða mikillar streitu. Þær veikja hjartað og gera það að verkum að það á erfiðara með að dæla blóði um líkamann. Í mörgum tilfellum jafnar hjartað sig þó aftur.

Meðan á heimsfaraldrinum stóð fjölgaði greindum tilfellum Takotsubo og var ekki alltaf um einstaklinga sem smitast höfðu af Covid að ræða. Þetta er þó samt sem áður enn tiltölulega sjaldgæft heilkenni – áætlað hefur verið að 1 af hverjum 50 einstaklingum sem lagðir eru inn vegna brjóstverkja séu í raun með Takotsubo. Frekari rannsókna er þörf til að skilja ástæður þessarar aukningar, en talið er að aukin streita tengd heimsfaraldrinum og bólga af völdum ónæmissvörunar líkamans við veirunni hafi mögulega haft áhrif.

Það er líka mögulegt að tilfellum Takotsubo hafi ekki fjölgað á meðan á heimsfaraldrinum stóð heldur hafi fólk einfaldlega orðið meðvitaðra um það.

Hver eru áhrif Covid-19 á lungun?

Í alvarlegum Covid tilfellum færist sýkingin niður öndunarveginn og til lungna þar sem hún getur valdið lungnabólgu. Fáirðu lungnabólgu eiga lungun erfiðara með að dæla súrefni út í blóðrásina sem getur jafnvel leitt til þess að sjúkrahúsinnlagnar sé þörf.

Komið hefur í ljós að ein af leiðum Covid veirunnar til að hefta starfsemi lungna er að valda skemmdum á litlum æðum í lungunum. Slíkar skemmdir geta valdið blóðtappa og vökvauppsöfnun í lungum, sem gerir það að verkum að geta þeirra til að dæla súrefni út í líkamann minnkar.

Ef þú færð lungnabólgu samhliða Covid-19 sýkingu gætirðu fundið fyrir einkennum eins og hröðum hjartslætti, mæði eða brjóstverk. Finnirðu fyrir einhverjum þessara einkenna á meðan þú ert með Covid skaltu hafa samband við 112.

Hve langan tíma tekur að jafna sig á Covid-19

Flestir sem smitast af Covid eru annaðhvort einkennalausir eða finna fyrir vægum einkennum sem minna á kvef eða flensu. Sé um væga sýkingu að ræða er líðan jafnan orðin betri eftir nokkra daga eða vikur.

Lítill hópur fólks þróar með sér alvarlegri einkenni sem gerir það að verkum að sjúkrahúsinnlagnar er þörf. Þeir sem veikjast alvarlega af Covid geta verið lengur að jafna sig.

Sumir finna fyrir einkennum sem vara í marga mánuði eftir smit og er þá talað um „langt Covid“ sem getur lýst sér í þreytu, mæði eða hjartsláttarónotum. „Langt Covid“ er vissulega algengara á meðal þeirra sem leggja hefur þurft inn í kjölfar Covid sýkingar en getur einnig þróast í kjölfar vægrar sýkingar.

Að lokum

Rétt er að minna á að þó Covid ógni ekki heilu þjóðunum eins og staðan er þá er heimsfaraldur sannarlega í gangi ennþá. Auk þess er rétt að benda á að bólusetningar hafa sannað sig og geta skipt sköpum þegar litið er til alvarlegri veikinda af völdum Covid-19. Auk þess er rétt að hafa í huga að hér á Íslandi er mælt með því að þeir sem eru eldri en 60 ára eða hafa undirliggjandi sjúkdóma láti bólusetja sig á fjögurra mánaða fresti.

Lesa má greinina í heild sinni á slóðinni hér fyrir neðan.

Björn Ófeigs.

Heimild: https://www.bhf.org.uk/informationsupport/heart-matters-magazine/news/coronavirus-and-your-health/what-does-coronavirus-do-to-your-body?fbclid=IwAR0EEPRREe5FeE2-t_hqrBYOeKVpHzzR9Km3mRKfAJzgXbVEIFVTCod0RIc

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-