Þetta eru undarlegir tímar sem við lifum á og lífi fólks um allan heim hefur verið snúið á hvolf. Kórónuveiran eða Covid-19 hefur breytt lífi milljóna um allan heim og við hér á Íslandi höfum sannarlega ekki farið varhluta af því.
Útivera hefur sennilega sjaldan verið mikilvægari en á farsóttartímum þar sem samkomutakmarkanir og fjarlægðarmörk eru lífsreglurnar.
Margir af þeim sem tilheyra viðkvæmum hópum eru aftur komnir í sjálfskipaða sóttkví og það á ekki síst við þá sem eru með undirliggjandi hjarta og æðasjúkdóma. Það er hins vegar mikilvægt að finna leið til að stunda útiveru því hana er hægt að stunda einn eða með nánustu fjölskyldu. Útivistin er okkur öllum mikilvæg og ekki síst þeim sem þurfa að halda sig til hlés til að halda heilsu og þá kannski ekki síst geðheilsunni. Þessir tímar taka á og hver og einn verður að finna sína leið og gönguferðir eru klassískar en þar sem ég er sérlegur aðdáandi hjólreiða þá finnst mér það frábær leið til útivistar.
Hjólað fyrir hjartað
Síðustu vikur hef ég verið að hjóla fyrir hjartað á Cube rafmagnshjólinu mínu og finnst mér það stórkostlegt. Veðrið hefur verið gott og eiginlega eins og best verður á kosið miðað við árstíma þó aðeins hafi blásið síðustu daga. Það má með sanni segja að þetta hjólreiðabrölt mitt hefur komið mér sérlega á óvart. Í fyrsta lagi vegna þess að ég er ennþá að hjóla nú í byrjun nóvember og sé fram á að hjóla eins og veður og aðstæður leyfa. Í öðru lagi fæ ég góða útivist og vel af súrefni í kroppinn og er alltaf að sjá eitthvað nýtt og skemmtilegt.
Hjólreiðarnar hafa auk þess gert mér gott að því leitinu að ég er bæði styrkari og jafnvægið betra. Hafandi í huga að í sautján ár hef ég ósköp lítið getað gert er rafmagnshjólið mikil blessun og ég er afar þakklátur fyrir að fá tækifæri til þess að upplifa þá möguleika sem hjólið veitir mér.
Ég er ekki frá því að geðslag mitt hafi líka tekið framförum á þann hátt að ég er léttari í skapi og læt utanaðkomandi hluti ekki hafa jafn mikil áhrif á mig og þau annars myndu líklega hafa. Mér finnst hugsun mín vera skýrari og lífsgæði mín hafa batnað mikið við það að hjóla.
Á ferðum mínum um bæinn hef ég séð borgina frá öðru sjónarhorni sem ég hef notið. Almennt finnst mér fólkið í umferðinni sýna kurteisi og langflestir stoppa þegar ég þarf að komast yfir götu. Ég hef vanið mig á að þakka fyrir mig og oftar en ekki fæ ég vink eða bros að launum.
Útivera mikilvæg fyrir andlega heilsu
Það er engin vafi í mínum huga það þetta hefur auðveldað mér til mikilla muna að takast á við þetta undarlega ástand. Móðir mín fékk Covid-19 veiruna í september og eins og gefur að skilja fylgdi því mikið álag þar sem hún er heilabiluð. Sem betur fer varð hún aldrei mikið veik og jafnaði sig tiltölulega hratt. Á meðan á þessu ástandi stóð reyndi ég að hjóla á hverjum degi og hjálpaði það mér mikið til að fást við streituna sem sannarlega hvíldi á fjölskyldunni.
Önnur ástæða fyrir því að rafmagnshjólreiðarnar passa mér vel er að ég er með stoðkerfisvandamál sem hafa gert mér erfitt fyrir ef ég ætla að ganga. En þegar ég er á hjólinu er ég algjörlega verkjalaus og finnst mér það mjög merkilegt og hefur komið mér á óvart.
Hvaða leið fólk velur til að stunda útiveru er undir hverjum og einum komið en mikilvægi hreyfingar á Covid tímum er ótvírætt.
Að lokum
Á meðan enn sér ekki fyrir endann á þessum ósköpum og bóluefni í prófunarfasa má telja líklegt að þessi vetur verði á svipuðum nótum og haustið hefur verið þ.e. er með miklum takmörkunum og ströngum fjarlægðarmörkum.
Hvað sem því líður skulum við vera góð við hvort annað og reyna að njóta þess að halda góðum tengslum við fólkið okkar með aðstoð vefmiðla og snjalltækja en myndsímtöl eru stórkostleg til að halda góðum tengslum. Ekki má heldur gleyma útiverunni og ég ætla að halda áfram að hjóla fyrir hjartað.
Björn Ófeigs.