Það er fátt skemmtilegra en að læra nýjar aðferðir við matreiðslu og fá nýjar hugmyndir í matargerð. Það stefnir í langa helgi með hæfilega passlegu grillveðri og víst að ekki verður vöntun á eðaltilboðum í mörgum verslunum svo ekki er úr vegi að prófa eitthvað skemmtilegt.
Lambakjötið er okkur hjartfólgið hér á hjartalif.is enda um hreina náttúruafurð að ræða en í þessum þætti frá Kjarnafæði útbýr Úlfar Finnbjörnsson matreiðslumeistari grillaðar lambalundir með paprikusalsa. Uppskriftin er svo hér fyrir neðan myndskeiðið.
Fyrir 4
800 g lambalundir
½ dl olía
1 tsk nýmulið BBQ & GRILL MESQUITE, eða annað gott grillkrydd
½ tsk nýmalaður pipar
2 tsk timjanlauf
2 tsk rósmarínnálar, smátt saxaðar
1-2 hvítlauksgeirar, smátt saxaðir
1 ½ tsk saltflögur
Allt sett í skál nema salt og blandað vel saman. Geymið í kæli í 2-24 klst. Strjúkið þá það mesta af olíunni af kjötinu og grillið í 1 ½ -2 mín á vel heitu grilli á hvorri hlið. Saltið.
Paprikusalsa
2 rauðar paprikur
1 gul paprika
Smjör- eða olíusprey
2 msk olía
1 rauðlaukur, skorinn í sneiðar
1 tsk broddkúmen (cumin)
Salt og nýmalaður pipar
1 msk oreganó, gróft saxað eða ½ tsk þurrkað
2 msk kóriander, gróft saxað
½ tsk chilliflögur
1 msk edik
1 msk sítrónusafi
1 msk fínt rifinn sítrónubörkur
2 msk hlyn síróp
Spreyið paprikurnar með smjörspreyi og grillið við mikinn hita í 5-7 mín eða þar til paprikurnar eru orðnar alveg svartar. Setjið þá paprikurnar í plastpoka í 5 mín. Skolið þá allt brennda hýðið af undir köldu rennandi vatni. Kjarnhreinsið paprikurnar og skerið í sneiðar.
Hitið 2 msk af olíu á pönnu og kraumið laukinn í 2 mín án þess að brúna. Bætið þá restinni sem er í uppskriftinni á pönnuna og kraumið í 2 mín.
Berið lundirnar fram með paprikusalsanu og t.d. grilluðum kartöflum, grænmeti og salati.
Góða skemmtun og verði ykkur að góðu.