Innri fita sem umlykur mikilvæg líffæri á borð við hjarta, lifur og bris getur að mati sumra lækna verið jafn hættuleg og sjáanleg fita sem liggur undir húðinni.
„Að vera grannur þýðir ekki sjálfkrafa að vera ekki feitur,” segir dr. Jimmy Bell, prófessor í sameindafræði við Imperial College í London. Frá árinu 1994 hafa Bell og teymi hans skannað næstum 800 manns með segulsneiðmyndatæki til að búa til eins konar kort yfir fituna í líkamanum. Samkvæmt gögnum þeirra er fólk sem viðheldur þyngd sinni með megrunum í stað æfinga líklegra til að búa yfir innri fitu, jafnvel þó það sé grannt.
Fólk með eðlilegan líkamsmassastuðul, sem er mælikvarði á þyngd miðað við hæð, getur verið með mikið af innri fitu samkvæmt niðurstöðum Bell. Af þeim konum sem töldust með eðlilegan líkamsmassastuðul voru 45 prósent með mikið magn innri fitu. Meðal karlanna var þetta hlutfall næstum 60 prósent.
Þegar augljós hættumerki vantar, á borð við stækkandi bumbu, óttast læknar að grannt fólk geti ranglega gert ráð fyrir að það sé heilbrigt vegna þess að það er ekki feitt. „Þó að fólk sé grannt er það ekki ónæmt fyrir sykursýki eða öðrum áhættuþáttum hjartasjúkdóma,” segir dr. Louis Teicholz, yfirmaður hjartasjúkdómadeildar Hackensack-spítalans í New Jersey.
Visir.is 21.05.2007