Bera má saman fjármálakerfi og heilbrigðiskerfi. Þó fjárfestingar innan þessara kerfa og sú þekking sem þarf til að meta ávinning og áhættur fjárfestinga séu afar ólíkar, þá þurfa svipuð skilyrði að vera til staðar til að tryggja góða ákvarðanatöku.
T.d. eru þrjár meginástæður taldar skýra þann vanda sem nú ríkir á fjármálamörkuðum: a) skortur á tilhlýðilegum leikreglum, b) skortur á gegnsæi og góðum upplýsingum, og c) gölluð líkön sem notuð eru við áhættumat. Þessir þrír orsakaþættir vandræða í fjármálakerfum valda líka vandræðum í heilbrigðiskerfum. Öllum heilbrigðiskerfum er hætta búin ef ekki er til staðar tilhlýðilegt regluverk, góðar upplýsingar, og þekking til að meta kerfislægar áhættur. Við skipulag og stýringu heilbrigðiskerfa þarf að taka mið af þessu.
Landsmenn fjárfesta í heilbrigðiskerfinu með greiðslu skatta. Ný Sjúkratryggingastofnun mun fjárfesta fyrir hönd skattgreiðenda í líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu landsmanna. Með nýjum lögum um sjúkratryggingar hafa kjörnir fulltrúar búið stofnuninni leikreglur til að tryggja aðgengi, jöfnuð, öryggi, gæði, árangur og hagkvæmni þjónustunnar. Það kemur í hlut Sjúkratryggingastofnunar að framfylgja lögunum, tryggja aðgengi að góðum upplýsingum og byggja upp þekkingu til að meta kerfislægar áhættur.
Framkvæmd laganna felur í sér innleiðingu þeirra kerfisbreytinga sem ríkisstjórnin boðaði í stefnuyfirlýsingu sinni í maí 2007. Góðar og áreiðanlegar upplýsingar eru forsenda þess að Sjúkratryggingastofnun nái markmiðum ríkisstjórnarinnar. Góð upplýsingatækni verður lífæð stofnunarinnar og tryggir ekki bara gæði og öryggi þjónustunnar fyrir sjúklinga, heldur má hér finna helstu hagræðingarvon í rekstri heilbrigðisþjónustunnar á Íslandi.
Með Sjúkratryggingastofnun fæst á einum stað í kerfinu heildarsýn við samningagerð um kaup og greiðslur fyrir heilbrigðisþjónustu. Þannig má draga úr kerfislægri áhættu, þ.e. hættunni á því að einn samningur um tiltekna þjónustu raski þjónustu annars staðar í kerfinu. Við mat á kerfislægum aðstæðum og áhættum þarf m.a. að taka mið af upplýsingum um heilsufarsaðstæður og þarfir landsmanna, samsetningu og stöðu mannauðs og tækni, og kostnað.
Fjárfestar í opinberum heilbrigðiskerfum eru sífellt kröfuharðari hópur. Það sem einkennir þennan hóp á Norðurlöndunum er hollusta við kerfið að því tilskyldu að jafnt skuli yfir alla ganga, og að áhættunni sé dreift milli eldri og yngri í kerfinu, milli heilbrigðra og veikra, efnameiri og efnaminni.
Þessi samanburður á að undirstrika að til að vel takist til við framkvæmd nýrra laga verða ákveðnar forsendur að vera til staðar.
Kerfisbreytingarnar eru langtíma samstarfsverkefni starfsfólks í heilbrigðisþjónustu. Hafa þarf áhuga og vilja til að takast á við ný verkefni, getu til að læra af reynslu annarra, tilfinningu fyrir gildi smárra skrefa, úthald og skilning á því að árangur skilar sér ekki á einu ári. Markmiðið er verðugt, þ.e. að tryggja áfram hágæðaþjónustu og þar með velferð á varanlegum grunni.
Höfundur er stjórnsýslufræðingur og einn af hugmyndafræðingunum að baki nýsamþykktum lögum um sjúkratryggingar.
www.visir.is 19.09.2008