Þeir skipta hundruðum sem hafa fengið bráðan hjartasjúkdóm en lifa í dag góðu lífi vegna þess að það gekk hratt og örugglega að koma þeim með sjúkraflugi til Reykjavíkur í gegnum lífæðina í Vatnsmýri og þaðan á Landspítalann.
Oft á tíðum er þessu fólki veitt endurlífgun nánast allan tíman meðan á flugi stendur. Á Landspítalanum taka færustu sérfræðingar okkar í málefnum hjartans á móti þeim, veita meðferð eða framkvæma lífsbjargandi bráðaðgerðir.
Frásagnir af slíku fólki eru margar og áhrifamiklar, Ein sú minnisstæðasta og áhrifamesta í seinni tíð er sagan af 12 ára stúlkunni sem fékk hjartaáfall í sundi. Þar sem óhætt er að fullyrða að þeir sem að fluginu komu hafi sýnt ótrúlega þrautsegju, en störf þeirra eru oft unnin við mjög erfiðar aðstæður.
Helga Sigríður Sigurðardóttir var aðeins tólf ára er hún fékk alvarlegt hjartaáfall í skólasundi á Akureyri, einn nóvemberdag 2010. Það var fyrir snarræði og fagmennsku sem tókst að halda Helgu á lífi, en strax varð ljóst að flytja þyrfti hana til frekari aðhlynningar á LHS í Reykjavík sem fyrst.
Kölluð var til sjúkraflugvél í flýti, en meðan á fluginu stóð varð að beita endurlífgun hvað eftir annað og eru læknar og bráðaliðar þeir er önnuðust Helgu á leiðinni taldir hafa unnið afrek með björgun hennar.
Koma Helgu á bráðadeild syðra var á elleftu stundu. Ljóst er að nánd Reykjavíkurflugvallar við spítalann þar skipti sköpum þennan dag. Leið Helgu lá skömmu síðar til Svíþjóðar þar sem talið var um tíma að hún þyrfti á nýju hjarta að halda, sem þó reyndist ekki raunin.
Í flutningnum til Svíþjóðar reyndi öðru sinni á nánd flugvallarins við LHS, þegar afar fullkomin og sérútbúin sjúkraþota lenti í Reykjavík til að sækja Helgu, en sérstakan búnað þurfti um borð til að halda líðan hennar stöðugri í því flugi. Helga Sigríður er lífsglöð stúlka og hefur náð ótrúlegum bata eftir þessa lífsreynslu.
Óhætt er að fullyrða að Helga er á lífi vegna nálægðar flugvallarins við Landsspítalann, lífæðinni í Vatnsmýri þar sem hjartað slær.
Tengt efni:
Tólf ára stúlka þarf nýtt hjarta
Allt lítur vel út með líffæri Helgu