Hvenær varð það synd að borða og njóta matarins? Hver kannast ekki við það að finna svengdartilfinningu vakna og ná sér í t.d. kökusneið, hrökkbrauð eða ávöxt (allt eftir smekk hvers og eins).
Taka fyrsta bitann og líða betur, líta svo á tölvuskjáinn eða sjónvarpið og eitthvað grípur athyglina, líta svo á diskinn og allt í einu er allt búið. Hvert fór maturinn? Fá sér meira. Svo byrjar neikvæðnin; „Ég ætti nú ekki að borða þetta“, „Hvers vegna var ég að borða þetta?“ Þetta kannast margir við og í kjölfarið fylgir oft gremja, samviskubit eða skömm.
Þessi mynd dregur fram megin ástæðu þess að svo margir upplifa neikvæðar tilfinningar og hugmyndir um mat og þá eðlilegu hegðun að nærast. Meginrót vandans liggur í huganum, það er skortur á vitundinni um hvað við erum að borða og hvernig við upplifum það. Við erum ekki að hlusta á hvaða skilaboð við fáum frá líkamanum þegar við borðum. Við erum aftengd og erum ekki að borða meðvitað, við borðum ekki af gjörhygli.
Þegar við borðum af gjörhygli lærum við að hlusta á skilaboðin frá líkamanum ekki bara varðandi svengd og seddu heldur líka hvernig okkur líður af því að borða ákveðinn mat frekar en annan. Við lærum að hlusta á hvaða næringu við þörfnumst og að byggja upp heilbrigð og jákvæð tengsl við þá eðlilegu og lífsnauðsynlegu hegðun að nærast.
En hvað felst í því að borða af gjörhygli?
Þegar við borðum af gjörhygli beinum við athygli okkar að þeirri hegðun að borða, bæði innri og ytri merkjum. Við tökum eftir lit, lykt, áferð, bragði og hitastigi fæðunnar. Við tökum eftir því hvernig líkaminn bregst við fæðunni, tökum eftir því hvernig við upplifum svengd eða seddu. Við beinum líka athyglinni að huganum og nálgumst hugsanir með opnum og fordómalausum hætti. Við tökum eftir því þegar athyglin hverfur frá matnum, við tökum eftir þeirri freistingu sem vaknar eftir nokkra bita að kveikja á sjónvarpinu, kíkja í tölvuna eða hringja í einhvern. Við tökum eftir þessu og færum athyglina aftur að verkefninu, að borða. Við tökum eftir því hvaða áhrif það að borða hefur á líðan okkar og tilfinningar og hvernig til dæmis kvíði eða skömm hefur áhrif á hvernig við borðum.
Smá saman, með þjálfun, byrjum við að upplifa ánægju og frelsi í því að njóta matarins, eins og við gerðum í æsku og eins og okkar náttúrulega eðli er.
Verði þér að góðu!
Að borða af gjörhygli er eitt af því sem kennt er á námskeiði Heilsustöðvarinnar „Betra sjálfstraust í yfirþyngd“.