-Auglýsing-

Ætla að láta verkin tala

Eftir að læknar hurfu úr neyðarbílum eiga landsmenn líf sitt undir bráðatæknum. Bráðatæknar eru flestum kunnuglegir úr bandarískum spítalaþáttum en hvaða menntun býr að baki bráðatæknum?

“Bráðatæknar hafa verið hið minnsta sex til tíu ár í sjúkraflutningum, en áður en störf hefjast þurfa þeir að taka grunnnám sjúkraflutninga í Sjúkraflutningaskólanum og síðan neyðarbílsmenntun eftir þrjú ár,” segir Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, sem sér um ráðningar bráðatækna.

-Auglýsing-

“Eftir þessa grunnmenntun, auk starfsreynslu, geta menn sótt um að gerast bráðatæknar og þá veljum við einstaklinga úr hópi umsækjenda og sendum til Pittsburgh í Bandaríkjunum þar sem þeir sitja á skólabekk og eru í verklegri þjálfun á sjúkrabílum, bráðamóttöku og ýmsum deildum sjúkrahúsa í níu mánuði,” segir Jón Viðar og útskýrir betur hvers vegna Pittsburgh varð fyrir valinu.

“Bráðatæknamenntun er upprunnin í Bandaríkjunum og hefur þróast um allan heim. Eftir ráðleggingar lækna hér heima ákváðum við að senda okkar menn til Pittsburgh því þar er mjög mikið að gera og borgin mjög þróuð hvað varðar heilbrigðisgeirann eftir að stáliðnaður í Pittsburgh gaf sig. Við höfum einnig miðað okkur við Seattle, sem hefur afskaplega góðan árangur í sjúkraflutningum, en í sjúkrabílum þar og almennt í Bandaríkjunum eru engir læknar í neyðarbílum,” segir Jón Viðar og staðfestir að Pittsburgh bjóði upp á allt sem Íslendingar þekkja úr bíómyndunum, og meira til.

“Eftir námið vestra eru menn orðnir bráðatæknar og við höfum nú marga slíka. Þeir ganga nú inn í þetta nýja kerfi sem byggist á mjög öflugri fjarskiptaþjónustu við lækna og slysadeildir. Við erum jákvæðir gagnvart þessari þróun en því er ekki að leyna að við hefðum ekki verið tilbúnir í hana fyrir tíu árum vegna skorts á menntun á þessu sviði. Það er eftirsjá að læknum sem hafa verið með okkur í sjúkrabílum frá árinu 1981, en án þeirra værum við ekki eins vel í stakk búnir né eins vel menntaðir til starfans, því læknar hafa frá upphafi hvatt menn á sjúkrabílum til að gera enn betur og ganga þetta langt í menntun á sviði sjúkraflutninga,” segir Jón Viðar og tekur undir að starf bráðatækna sé átakanlegt.

“Við erum svo lánsamir að til okkar veljast eingöngu menn sem hafa gífurlegan áhuga á því að hjálpa og aðstoða, og það einkennir bráðatækna að hafa til að bera þá miklu manngæsku sem einkennir heilbrigðisgeirann. Þetta eru ævintýra- og aksjónmenn sem eru fljótir að taka ákvarðanir og mjög drífandi og duglegir í því sem þeir gera. Starfið er gefandi og upp úr stendur að mönnum er ekki sama. Það hreyfir alltaf við öllum þegar eitthvað bjátar á hjá öðrum,” segir Jón Viðar og leggur áherslu á að engin áhætta verði tekin á slysstað því bráðatæknar ráði vitaskuld ekki við allt.

- Auglýsing-

“Við búum við stuttar vegalengdir og verðum í beinum fjarskiptum við lækna, ásamt því að geta alltaf fengið lækna á staðinn. Bráðaatvik í sjúkraflutningum snúast mikið um endurlífganir, að stöðva blæðingar og greina ástand sjúklings. Fólk þarf ekki að vera hrætt og okkur þykir miður hvað fólk hefur skapað neikvæða sýn á þessa breytingu en höfum einsett okkur að láta verkin tala og vera dæmdir út frá þeim.”

thordis@frettabladid.is

Fréttablaðið 22.01.2008

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-