Ný bandarísk rannsókn gefur til kynna að offita eldi æðar barna og unglinga um allt að þrjátíu ár. Þá sýnir könnunin að mun meiri líkur eru á að börn og unglingar, sem eru of feit fái hjartasjúkdóma en önnur börn. Þetta kemur fram á fréttavef Jyllands-Posten.
Rannsóknin var gerð við Missouri Kansas CitySchool of Medicine í Bandaríkjunum og tóku um sjötíu börn, sem eiga við offitu að stríða og eru með óvenjuhátt kólesterólmagn í blóði, þátt í henni. Notuð voru sónartæki til að mæla þykkt æða barnanna, sem voru á aldrinum 6 til 19 ára, en með því má reikna út hversu mikil fita hafi sest inn í æðar þeirra.
Barnalæknirinn Geetha Raghuveer, sem stjórnaði rannsókninni, segir niðurstöður hennar hafa verið sláandi. Segir hún ekki hafa komið á óvart að meiri fita hafi safnast í æðar feitra barna en annarra barna en að engum hafi þó dottið í hug að ástand æða þeirra væri sambærilegt við þrjátíu árum eldri einstaklinga.
www.mbl.is 13.11.2008