-Auglýsing-

Að vera sjálfum sér trúr

Það er margt sem getur truflað á lífsins vegi.

Það er einfalt að segja það, en það að vera sjálfum sér trúr reynist mörgum erfitt. Hver ert þú? Hvað vilt þú? Og hverjar eru þarfir þínar? Þetta eru nokkrar af þeim grundvallarspurningum sem við ættum að byggja tilveru okkar á og móta hegðun okkar út frá þeim svörum sem við finnum.

Það að vera sjálfum sér trúr snýst um að þekkja sjálfan sig og setja mörk um þá hegðun sem við sýnum í daglegu lífi og á þá hegðun sem við samþykkjum frá öðrum.

Að sjálfsögðu lendum við í aðstæðum þar sem við erum ekki viss. Ýmislegt dynur á í lífinu og við höfum ekki velt fyrir okkur hver við erum við nýjar aðstæður, hvað við viljum eða hverjar þarfir okkar eru þegar eitthvað er breytt. Það er skiljanlegt að þá göngum við sjálf eða leyfum öðrum að ganga yfir mörk okkar um stund. Þá er nauðsynlegt að setjast niður og hugsa, jafnvel með sínum nánustu eða sérfræðingi ef við á. Hvað er breytt og hvað þýðir það fyrir mig? Þá hugsum við um hvaða gildi okkur eru mikilvæg og hvernig við viljum bregðast við. Við þurfum ekki að vera sátt við það sem dynur á en við þurfum að lifa í sátt við okkur sjálf.

Þessar grundvallarspurningar eiga það almennt til að gleymast í daglegu lífi. Hvernig vil ég haga mér, hvernig vil ég tala til fólks, hvernig vil ég deila lífi mínu, tilfinningum og hugsunum og, ekki síst, hverju vil ég taka á móti frá öðru fólki? Það er mikilvægt að taka ábyrgð og láta ekki stjórnast af duttlungum annarra eða ófyrirséðu flæði lífsins.

Á sitthvorum endanum á viðbrögðum okkar við atlögu að mörkum okkar eru óákveðni og yfirgangur. Í óákveðni eða undirgefni eltum við annað fólk í því sem það vill, koðnum undan þrýstingi, yfirgefum gildi okkar og mörkin dofna og færast til.

Í yfirgangi eða ofurstjórnun göngum við á mörk annarra eða lokum á þá sem ógna okkur, látum ekki bjóða okkur neitt og fjarlægjumst annað fólk.

- Auglýsing-

Eins og oft áður er miðjan góð. Í miðjunni er jafnvægi sem hvílir á trausti til þess hver við erum. Þar er sjálfsþekking og við erum heiðarleg um tilfinningar okkar. Þar er ákveðni um eigin gildi, um viðeigandi hegðun og viðbrögð en tillitssemi til annarra sem hafa önnur gildi og mörk. Í miðjunni sýnum við sjálfum okkur og öðrum virðingu.

Leitin að miðjunni er eilífðarverkefni og þar sem við erum mannleg er hvorki einfalt að finna hana né halda sig þar. Það getur líka verið gott að stíga til baka og fá lánað sjónarhorn sérfræðings sem getur leiðbeint í gegnum stærstu hindranirnar í leitinni.

Mjöll Jónsdóttir sálfræðingur
mjoll@salfraedistofan.is

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Mjöll Jónsdóttir
Mjöll Jónsdóttirhttps://www.salfraedistofan.is/um-okkur/starfsfolk/mjoll-jonsdottir/
Mjöll lauk B.A. námi í sálfræði frá Háskóla Íslands árið 2006 og Cand. Psych. prófi frá Háskólanum í Árósum árið 2012. Mjöll hefur sótt námskeið og fyrirlestra á sviði áfallameðferðar og heilsusálfræði ásamt því að sækja ráðstefnur um sitt sérsvið. Mjöll starfar hjá Sálfræðistofunni Höfðabakka 9

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-