Af djúpri virðingu og einstöku þakklæti þökkum við ykkur og öllum þeim ótrúlegu listamönnum sem lögðu okkur lið á styrktartónleikum Hjartagáttarinnar í kvöld. Við erum afskaplega hrærð yfir móttökunum og getum með stolti sagt að óformleg talning segir að 407 miðar hafi selst og var því spilað fyrir nánast fullu húsi. Magnað!
Við munum færa Hjartagáttinni andvirði þessara miða ásamt því sem kemur inn á styrktarlínum söfnunarátaksins með hjartanlegum kveðjum frá ykkur öllum sem mættuð eða lögðuð söfnuninni lið á einn eða annan hátt. Það tekur einhvern tíma að fá allt fjármagnið í hús en við munum leyfa ykkur að fylgjast með þegar að því kemur.
Það tekst ekki að ýta svona verkefni úr vör með svona litlum fyrirvara nema með aðkomu ykkar allra, þessara frábæru listamanna sem léku á alls oddi og gáfu allir söfnuninni vinnu sína, tækni- og aðstoðarmanna sem gerðu þetta allt mögulegt, styrktaraðila og áhorfenda sem tóku undir í söng og fögnuðu innilega hæfileikaflóðinu á sviðinu, starfsfólki Gamla Bíós og svo auðvitað starfsfólki Hjartagáttarinnar og hjartadeildar sem var sérstaklega gaman að eiga í samvinnu við. Það eruð þið sem við erum öll að gera þetta fyrir. Þið vinnið frábært starf og það er okkur heiður að fá að leggja starfi ykkar lið. Þá þökkum við Ingibjörgu Grétu (rigga.is) sérstaklega fyrir hennar stóra þátt í þessu frábæra kvöldi.
Það var bara eitthvað svo ótrúlega magnað að upplifa þetta kvöld með ykkur öllum sem byrjaði sem hversdagslegt spjall milli Jökuls rakara (og bassaleikara Thin Jim) og Bjössa (hér á hjartalif.is) þar sem þeir ræddu lífið og tilveruna á meðan Jökull gerði Bjössa fínann. Spjallið varð að skipulagi og í kvöld sáum við sýn þeirra rætast. Þetta tókst og nú stefnum við ótrauð að því að gera þetta að árlegum viðburði og vonumst til að sjá ykkur öll að ári.
Núna förum við hins vegar klökk að sofa, þreytt en þakklát fyrir þátttöku ykkar allra og óskum þess að þið eigið öll langt og gott hjartalíf fyrir höndum.
Bjössi og Mjöll