Áherslan í mataræði Norðurlandabúa er sett á mikilvægi þess að líta á mataræðið heildstætt og uppruni og gæði skipti miklu máli.
Nýjar norrænar næringarráðleggingar (NNR 5) voru kynntar í Kaupmannahöfn 3. október 2013. Norrænu ráðleggingarnar mynda vísindalegan grunn fyrir ráðleggingar um mataræði og næringarefni hjá norrænu þjóðunum og eru einnig mikilvægar fyrir akademíska kennslu á sviði næringar. Ráðleggingarnar verða í fyrsta sinn aðgengilegar á netinu án endurgjalds.
Áhersla á mataræðið í heild sinni
Áhersla er lögð á mataræðið í heild sinni í nýrri útgáfu norrænna næringarráðlegginga en jafnframt eru birtar ráðleggingar um neyslu vítamína og steinefna.Lögð er áhersla á mataræði sem er ákjósanlegt fyrir þroska og starfsemi líkamans og stuðlar að því að draga úr áhættu vissra næringartengdra sjúkdóma.
Notast hefur verið við gagnreynt og gagnsætt ferli til þess að ákveða ráðleggingarnar. Í NNR 5 er nú meiri áhersla lögð á almenn gæði matarins og uppruna næringarefnanna sem við neytum.
Í NNR 5 er lögð áhersla á mataræði sem einkennist af mikilli neyslu grænmetis, ávaxta, berja og belgávaxta, reglubundinni neyslu fisks, jurtaolía, heilkornavara, fituskertra mjólkur- og kjötafurða en takmarkaðri neyslu á rauðu kjöti og unnum kjötvörum, sykri, salti og áfengi.
Lögð er áhersla á gæði fitu og kolvetna í NNR 5 og mælt með neyslu á einómettuðum fitusýrum (MUFA), fjölómettuðum fitusýrum (PUFA) og trefjaríkri fæðu en hvatt til þess að takmarka neyslu á mettaðri fitu, transfitusýrum og viðbættum sykri.
Ráðleggingar um hreyfingu
Hvað hreyfingu varðar er mælt með að fullorðnir stundi ≥150 mínútur af miðlungserfiðri hreyfingu eða ≥75 mínútur af erfiðri hreyfingu yfir vikuna eða samsvarandi blöndu af bæði miðlungserfiðri og erfiðri hreyfingu. Börn og unglingar ættu að hreyfa sig daglega í minnst 60 mínútur samtals og á hreyfingin að vera bæði miðlungserfið og erfið. Einnig er ráðlagt að takmarka kyrrsetu á öllum æviskeiðum.
Vinnan við ráðleggingarnar
Norrænu ráðleggingarnar voru unnar af vinnuhópi á vegum Norrænu embættismanna-nefndarinnar um matvæli (Nordic Committee of Senior Officials for Food Issues, EK-FJLS) sem tilnefnt var í árið 2009. Yfir hundrað sérfræðingar hafa tekið þátt í endurskoðuninni sem byggir á gagnreyndum aðferðum við að meta sambandið milli neysluvenja og áhrifa á heilsu.
Næstu skref á Íslandi
Norrænu næringarráðleggingarnar verða kynntar á Matvæladegi MNÍ 2013 sem haldinn verður á Grand Hótel Reykjavík miðvikudaginn 16. október. Yfirskrift dagsins er: Ráðleggingar um mataræði og næringarefni – nýjar áherslur. Íslenskar ráðleggingar um mataræði og næringarefni byggja að stórum hluta á þeim norrænu og verða þær endurskoðaðar í kjölfarið.
Nánari upplýsingar er að finna á www.norden.org/nnr
Hólmfríður Þorgeirsdóttir
verkefnisstjóri næringar
Af vef Landlæknis