Er nema furða að maður velti því fyrir sér hvort aðgerðirnar til handa LSH séu upphafið að endurreisn eða smáskammtalækningar.
Aðgerðaráætlunin sem kynnt var í gær til bjargar lyflækningasviði LSH er góðra gjalda verð. Þetta eru í sjálfu sér fínar tillögur en það er engu að síðu athyglisvert að þessar tillögur hafi ekki fyrir löngu fengið hljómgrunn eða framgang, það vekur undrun.
Stjórnendur spítalans eru í slæmri stöðu en þeir höfðu enga aðra kosti en að hlusta á kröfur lækna, sérfræðinga, hjúkrunarfæðinga og prófessora enda voru þessar kröfur bæði áberandi og háværar.
Það er líka umhugsunarefni að ekki hafi tekist að koma tillögunum áfram innan spítalans fyrr en allt var sett á annan endann í fjölmiðlum, alla vega blasir það þannig við séð með augum leikmanns.
Þessi staðreynd hlýtur að vekja upp spurningar um hæfi stjórnenda spítalans ef starfsmenn koma ekki sínum hugmyndum til framkvæmda nema með þessum hávaða.
Ég hef fylgst með viðbrögðum og þau virðast almennt jákvæð þó radda efasemda gæti eins og eðlilegt er.
„Hvort þær úrbætur sem boðaðar eru af hálfu heilbrigðisráðherra á lyflækningasviðinu duga einar sér á eftir að koma í ljós. Vandamálin verða til staðar að minnsta kosti eitthvað fram á veturinn en þetta er kannski upphafið að því að hefja endurreisnarstarf á sviðinu,“ segir Karl Andersen, prófessor í hjartalækningum við Fréttablaðið í dag.
Tillögurnar eru semsagt þess eðlis að ekkert breytist eins og hendi sé veifað heldur er málið komið í ferli og veltur mikið á starfsmönnum að útfæra þetta vinnuplagg, en það er í sjálfu sér gott að þeir séu komnir að borðinu.
Ég get hinsvegar ekki varist þeirri tilhugsun að forstjóri spítalans hlýtur að vera í afar erfiðri stöðu, hann og hans nánasta samstarfsfólk ber stóra ábyrgð á þessu ástandi og það er galið að engin taki ábyrgð á því að hafa látið þetta ganga svona langt. Stjórnunarvandi virðist vera klárlega til staðar.
Þá er rétt að hafa í huga að þessi aðgerð sýnst fyrst og síðast um lyflækningasviðið og þá er allt hitt eftir.
Ég verð því að láta í ljós efasemdir mínar um að þetta dugi til að reisa hinn langveika Landspítala úr rekkju.
Björn Ófeigsson