Amerísku hjartasamtökin (American Heart Association) gáfu út sjö einfaldar reglur sem hjálpa til með að minnka líkur á hjartasjúkdómum og krabbameini. Með því að uppfylla sex til sjö af þessum atriðum, þá geta líkurnar minnkað um allt að 51% á því að deyja úr þessum sjúkdómum. Ef uppfylltir eru fjórir af þessum hlutum, þá minnka líkurnar um 33%, ef einn eða tveir eru uppfylltir, þá minnka líkur um 21%.
Hér eru skrefin sem samtökin mæla með:
1. Hreyfing
Hreyfing kemur í veg fyrir marga sjúkdóma eins og hjarta- og æðasjúkdóma, sykursýki 2, offitu, beinþynningu, krabbamein og geðröskun. Regluleg hreyfing getur bæði lengt lífið og bætt gæði þess. Ráðleggingar frá Embætti Landlæknis mæla með hreyfingu í minnst 30 mínútur daglega. Gott er að taka frá tíma daglega og byrja á gönguferðum.
2. Hætta að reykja
Þessi liður er mjög mikilvægur og það er aldrei of seint að hætta. Reykingar er einn helsti áhættuþáttur krabbameina en geta einnig eyðilagt blóðrásarkerfið og aukið þannig líkur á hjartasjúkdómum.
3. Hafa stjórn á blóðsykri / Lækka blóðsykur
-Auglýsing-
Há gildi blóðsykurs geta aukið líkur á sykursýki 2 og fylgikvillum þess eins og blindu, nýrnasjúkdómum og taugaskemmdum. Það er mjög mikilvægt að fylgjast með blóðsykursgildum, sérstaklega ef fólk er þegar komið með sykursýki 2.
4. Vera í kjörþyngd
Þegar líkamsþyngdarstuðull (BMI) er hærri en 25 kg/m2, þá aukast líkur á áhættuþáttum sem geta orsakað hjartasjúkdóma eins og háþrýstingur, há kólesteról gildi og sykursýki 2.
5. Vera með heilbrigð blóðþrýstingsgildi
Háþrýstingur er einn helsti áhættuþáttur hjartasjúkdóma. Ef háþrýstingur stendur lengi yfir, þá getur hjartað stækkað sem minnkar skilvirkni hjartadælanna, sem getur leitt til hjartabilanar. Ef blóðþrýstingur er innan eðlilegra gilda, þá minnkar álagið á hjartað, æðarnar og nýrun sem heldur sjúkdómum lengur í skefjum. Helstu aðferðir til að halda blóðþrýsting innan eðillegra marka er að borða hollan mat og þá sérstaklega minnka saltneyslu, stunda reglulega hreyfingu, vera í kjörþyngd, minnka stress, drekka áfengi í hófi og ekki reykja.
6. Borða hollan mat
- Auglýsing-
Miðjarðarhafsmataræðið getur minnkað líkur hjartaáfalla, heilablóðfalla og dánarlíkur hjá fólki sem hefur áhættu á hjartasjúkdómum. Það mataræði er ríkt af ávöxtum, grænmeti, fisk og trefjaríku fæði en kjöt og feitar mjólkurvörur er borðaðar í hófi. Ólífuolía er notuð frekar en smjör við bökun, eldun, á salöt og til að bleyta brauð. Mataræðið inniheldur mikið afeinómettuðum fitusýrum sem er talið vernda gegn hjartasjúkdómum.
7. Viðhalda heilbrigðu kólesterólgildi
Of mikið kólesteról í blóðinu þrengir æðarnar. Það hægir á blóðflæði og á endanum lokast flæði til hjartans sem getur valdið hjartaáfalli.
Að lokum
Ef þú uppfyllir ekki nú þegar öll þessi atriði, þá endilega reyndu að laga þá hluti sem vantar uppá. Heilsan okkar er svo mikilvæg og hjartasjúkdómar eru helsta dánarorsökin í heiminum í dag. Ef þú veist ekki gildin þín fyrir blóðþrýsting, blóðsykur og blóðfitur, þá er hægt að fara til heimilislæknis og láta mæla. Það er líka hægt að kaupa blóðþrýstingsmæla í dag sem kosta ekki annan handlegginn og fylgjast með sínum gildum. Svo er auðvitað málið að borða hollan mat og hreyfa sig sem gerir það mun auðveldara að hafa áhrif á hin atriðin.
Hérna má lesa meira um reglurnar sjö: The Simple 7
Pistillinn er úr smiðju Hrundar Valgeirsdóttur næringarfræðings MSc, sem heldur úti bloggsíðunni naering.com
-Auglýsing-