Actavis mun áfrýja dómi, sem féll í gær í Texas í Bandaríkjunum, þar sem tvær starfsstöðvar fyrirtækisins voru af kviðdómi fundnar sekar um að hækka verð á samheitalyfjum til að fá meira greitt úr opinberum sjúkratryggingum.
Dómstóllinn dæmdi Actavis til að greiða um 170 milljónir dala í sekt, andvirði um 20 milljarða króna.
Yfirlýsing Actavis hljóðar svo:
„Ríkisdómstóll í Texas dæmdi í gær dótturfyrirtæki Actavis Group, Actavis LLC Mid-Atlantic og Actavis Elisabeth LLC, fyrir misvísandi verðlagningu í viðskiptum við opinbera aðila (Medicaid). Dómnum verður áfrýjað enda telur Actavis sig hafa góða stöðu til þess.
John LaRocca, yfirlögfræðingur Actavis í Bandaríkjunum: „Við erum vonsvikin með niðurstöðu dómsins og erum að gaumgæfa lagalega stöðu okkar. Það er ásetningur Actavis, hér eftir sem hingað til, að bjóða aðeins hágæða vöru á samkeppnishæfu verði til neytenda. Einnig þeirra milljóna Bandaríkjamanna sem taka þátt í svo kölluðu Medicaid prógrammi.“
www.mbl.is 02.02.2011