Læknaskortur er stærsta vandamálið í íslenska heilbrigðiskerfinu í dag, að mati Birnu Jónsdóttur, formanns Læknafélags Íslands. Samanburður við nágrannaríki og fjölda lækna á hvern íbúa þar undirstriki þennan vanda. Nýliðun haldi ekki í við eftirspurn eftir læknum í samfélaginu. Þá minnti hún á að læknar séu hreyfanlegt vinnuafl.
Að sögn Birnu er ekki hægt að halda áfram á sömu braut og stöðugt auka álag á eldri lækna. Komið sé að endastöð í þeim efnum. Þá sagði hún verulega skorta á samráð við lækna í þeim breytingum sem gerðar hefðu verið á heilbrigðiskerfinu.
„Það hefur markvisst verið unnið að því pólitískt að rýra kjör lækna miðað við aðra hópa og þegna í þjóðfélaginu,“ sagði Birna.
Kvörtunum ekki fjölgað
Kvörtunum vegna heilbrigðisþjónustu á Íslandi hefur ekki fjölgað í kreppunni, að því er fram kom í máli Geirs Gunnlaugssonar landlæknis á læknadögum í dag. Geir sýndi einnig tölur yfir fjölda dauðsfalla en þær leiða í ljós að engin aukning hefur heldur orðið þar.
www.mbl.is 24.01.2011