Bágt efnahagsástand gefur ekki tilefni til að slá fyrirhuguðum framkvæmdum við Háskólasjúkrahús á frest heldur þvert á móti er nú tilvalið að ráðast í svo mannaflsfrekar framkvæmdir, að mati Guðlaugs Þórs Þórðarsonar, sem lagði í þinginu áðan fyrirspurn um málið til Ögmundar Jónassonar heilbrigðisráðherra.
Í rökstuðningi sínum vísaði Guðlaugur meðal annars til þess að ýmis aðkeypt þjónusta og byggingarvörur væru ódýrari eftir að niðursveiflan hófst og því hagkvæmt að hefja framkvæmdir á þessum tímapunkti.
Í andsvari sínu sagði Ögmundur unnið með norskum sérfræðingum að greiningu verkefnisins og fyrirhugaðri áfangaskiptingu.
Þeirri undirbúningsvinnu ætti að að vera lokið um næstu mánaðamót.
Hann hefði sjálfur nýlega átt fund með forstjóra og lækningaforstjóra Landspítala háskólasjúkrahúss og fleiri aðila sem komi að málinu.
Hvað varðaði fyrirspurn Guðlaugs Þórs um hvort stefnubreyting hefði orðið í málinu sagði Ögmundur því til að svara að svo væri ekki.
Uppbygging nýs spítala væri langtímaverkefni sem tæki langan tíma. Ekki mætti láta tímabundna erfiðleika hafa áhrif á þá sýn.
Símapeningar horfnir
Álfheiður Ingadóttir, þingkona Vinstri grænna, tók til máls í umræðunum og sagði fjármuni eyrnamerkta framkvæmdinni sem fengust hefðu með sölu Símans hafa horfið „inn í hítina“.
Siv Friðleifsdóttir sagði eftir miklu að slægjast með framkvæmdinni sem leiða myndi til 15 prósent hagræðingar í spítalarekstrinum.
Framsóknarmenn hefðu lagt mikla áherslu á þetta mál klárist.
Lýsti Guðlaugur Þór yfir sérstakri ánægju með að ekki hefði verið tekin stefnubreyting í málinu. Dýrt væri að gera ekki neitt.
Mikil hagræðing væri að hafa sjúkrahúsið á einum stað.
www.mbl.is 18.03.2009