Um 70 Íslendingar leggja nú stund á læknisfræði í borginni Debrecen í Ungverjalandi. Kennari við læknaskólann segir að þeir hafi flestir margreynt að komast inn í læknadeildina hér en ekki tekist. Þeir þykja standa sig vel bæði í námi og starfi.
Í dag hefja 18 Íslendingar nám við læknadeild Háskólans í Debrecen í Ungverjalandi. Fyrsti íslenski læknirinn útskrifaðist þaðan árið 1999. Hamad Omer, kennari við læknadeildina, sagði í samtali við fréttastofu Útvarps að eftir það hafi íslenskum nemendum fjölgað jafnt og þétt.
Frá 2004 hafi 15 til 20 hafið nám á hverju hausti. Útsendarar frá læknadeild skólans koma til Íslands fjórum sinnum á ári og taka áhugasama í viðtöl.
Omer segir að alltaf heltist einhverjir úr lestinni og haldi til síns heima en flestir kunni vel við sig og ljúki námi. Hann segir flesta læknanemana hafa margsinnis reynt að komast inn í læknadeild Háskóla Íslands en ekki gengið og sjái ekki ástæðu til þess að halda áfram. Þeir standi sig eigi að síður vel í Ungverjalandi.
Ólafur Baldursson, sviðsstjóri kennslu- og fræðasviðs Landspítalans, segir að flestir þeirra sem lært hafa í Ungverjalandi reynist vel þegar heim er komið. Sumir stundi nám sitt að hluta hérlendis og margir hafi verið ráðnir sem kandídatar og síðar deildarlæknar.
Ólafur tekur fram að Landspítalinn meti alla lækna og læknanema sem hefji störf á spítalanum, farið sé ýtarlega yfir gögn hvers og eins og óskað eftir meðmælabréfum frá þeirri læknadeild sem viðkomandi útskrifaðist frá.
www.ruv.is 25.08.2008