Hjartavernd

Hjartavernd Logo-Midjad resHjartavernd, landssamtök hjarta- og æðaverndarfélaga voru stofnuð í október árið 1964. Rannsóknarstöð Hjartaverndar hóf síðan starfsemi sína þremur árum síðar eða árið 1967 með mjög víðtækri faraldsfræðilegri rannsókn, Reykjavíkurrannsókn Hjartaverndar og stóð hún yfir til ársins 1996.
Í rannsókninni var lögð áhersla á að finna helstu áhættuþætti hjarta- og æðasjúkdóma meðal Íslendinga en tíðni þeirra var mjög vaxandi á þeim tíma og var orðinn að faraldri á Vesturlöndum. Nokkrar rannsóknir hafa tengst henni og er Öldrunarrannsókn Hjartaverndar sú langstærsta.

Á árinu 2005 var gerð breyting á rekstrarformi Hjartaverndar og hún gerð að sjálfseignarstofnun. Jafnframt fluttist áhættumatið sem Hjartavernd hafði boðið uppá í fjörtíu ár yfir í nýstofnað systurfyrirtæki Hjartaverndar, Hjartarannsókn sem annast hefur matið síðan.

Í áhættumatinu geta einstaklingar fengið mælingar á helstu áhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma og heildstætt mat á því hverjar líkurnar séu á því að það fái hjartasjúkdóm síðar á lífsleiðinni.
Áhættumatið grundvallast á eftirfarandi áhættuþáttum: reykingum, háum blóðþrýstingi, háum blóðfitum, ættarsögu, offitu, sykursýki og hreyfingarleysi. Áhættumat Hjartarannsóknar er öllum opið  og eru einstaklingar sem hafa ættarsögu um kransæðasjúkdóma og allir yfir fertugt sérstaklega hvattir til að fara í áhættumat.

Áhættumat Hjartarannsóknar fer oftast fram í tveimur heimsóknum. Í fyrri heimsókn eru gerðar grunnmælingar á blóðþrýstingi, þyngd, fituhlutfalli, mittismáli, reiknaður þyngdarstuðull, tekið hjartalínurit og blóðrannsóknir. Þá svarar fólk spurningalista um heilsufar og ættarsögu. Í síðari komu liggja niðurstöður mælinganna fyrir og fer viðkomandi þá í viðtal hjá lækni. Í því viðtali er notaður áhættureiknir til að finna út líkurnar á því að viðkomandi fái hjartasjúkdóm á næstu 10 árum.

Þetta viðtal er einstaklingsmiðað og ráðgjöfin miðar að því að bæta horfur hvers og eins. Ef í ljós koma merki um hjartasjúkdóm eða aðra kvilla er viðkomandi vísað áfram í viðeigandi rannsóknir eða meðferð. Hægt er að panta tíma í áhættumat Hjartarannsóknar í síma 585 4700 eða með því að fara á heimasíðu Hjartarannsóknar www.hjartarannsokn.is