Tævanskar karlmaður á fimmtugsaldri lést skömmu eftir að hafa séð stórmynd James Cameron, Avatar, í tævönsku kvikmyndahúsi á dögunum. Maðurinn hafði lengi þjáðst af of háum blóðþrýstingi og er talið að spennan og sjónrænir þættir myndarinnar hafi orsakað hjartaáfallið sem dró hann til dauða. Myndin er sýnd í þrívídd og eiga áhorfendur því það til að lifa sig meira en ella inn í myndina.
Maðurinn sem hét Kuo, er sagður hafa byrjað að finna fyrir óþægindum meðan á sýningunni stóð og kvartaði hann meðal annars undan verkjum fyrir brjósti. Hann taldi óþægindin þó minniháttar en annað kom í ljós þegar hann var nokkrum dögum síðar fluttur meðvitundarlaus á sjúkrahús þar sem hann lést skömmu eftir komu sína þangað. Vakthafandi læknir sagði við fjölmiðla að líklega hefði spennan einfaldlega verið of mikil þar sem maðurinn var veikur fyrir.
Fjölmiðillinn The China Times segir frá því að dauðsfallið sé það fyrsta sem rakið hefur verið beint til kvikmyndarinnar sem slegið hefur öll aðsóknarmet síðan hún fór í sýningar. Erlendar kvikmyndasíður segja frá því að fjölmargir áhorfendur myndarinnar hafi kvartað yfir svima, óglegði og almennum óþægindum eftir myndina. Pressan hefur meðal annars fjallað um tilvik þunglyndis sem rakin hafa verið beint til kvikmyndarinnar.
www.pressan.is 20.01.2009