Um næstu áramót verður Landspítali – háskólasjúkrahúss reyklaust sjúkrahús, en þá verður síðasta reykherbergi spítalans lokað. Fyrstu skrefin að reyklausu sjúkrahúsi verður hinsvegar tekið eftir viku, n.t.t. þann 15. ágúst. Þá verður reykherbergjum í aðalbyggingum LSH í Fossvogi og við Hringbraut lokað. Að sögn lækna er þetta gert til þess að bæta heilsu og líðan starfsmanna og sjúklinga sem geta andað léttar í reyklausu umhverfi.
Dóra Lúðvíksdóttir, lungnalæknir fer fyrir starfshópi, á vegum forstjóra LSH, sem unnið hefur að verkefninu. Hún segir talsvert hafa borið á kvörtunum frá sjúklingum og starfsmönnum vegna þeirra reykherbergja sem séu á spítalanum. Kvartað hefur verið undan því að herbergin valdi starfsfólki og sjúklingum bæði ónæði og óþægindum. Þetta er því gert til þess að koma til móts við sjúklingana og starfsmennina og er þetta svipuð þróun sem á sér nú stað í löndunum í kring um okkur. Aðspurð segir hún þetta í raun vera orðið löngu tímabært.
Dóra segir að vel verði tekið á móti reykingarfólki sem kemur á sjúkrahúsið og að það muni fá góðan stuðning. Það mun m.a. fá leiðbeiningar varðandi lyfjameðferð, t.d. verði þeim boðið nikótínlyf eftir þörfum, sem og nýrri lyf sem draga úr sjálfri reyklönguninni.
Hún segir starsfmenn LSH hafa tekið í vel í þær hugmyndir og vera almennt í stakk búnir að gera sjúkrahúsið að reyklausum stað, en aðspurð segir hún að um 7% starfsmannanna reyki.
www.mbl.is 08.08.2007