Niðurstöður nýrrar rannsóknar í Bandaríkjunum benda til að sú útbreidda skoðun að hvítlaukur geti lækkað kólesteról kunni að vera málum blandin. Rannsóknin stóð í þrjú ár og tóku tæplega 200 manns þátt í henni. Leiddi hún ekki í ljós neinar vísbendingar um að hvítlaukur eða hvítlauksduft hafi „tölfræðilega marktæk“ áhrif til lækkunar kólesteróls.
Rannsóknin var gerð við læknadeild Stanfordháskóla og eru niðurstöðurnar birtar í nýjasta hefti Archives of Internal Medicine.
Fylgst var með 192 einstaklingum á aldrinum 30-65 ára er höfðu tiltölulega mikið af „slæmu“ kólesteróli (LDL). 49 þátttakendur tóku hráan hvítlauk, 47 tóku hvítlauksduft og 48 tóku gamalt hvítlauksbætiefni. 48 þátttakendur fengu lyfleysu.
Þótt niðurstöðurnar sýndu engin merki um að neitt af hvítlauksefnunum hefði lækkandi áhrif á kólesterólið segja vísindamenn að það þýði ekki að hvítlaukur geti ekki haft heilsusamleg áhrif með einhverjum öðrum hætti.
Fréttin birtist á mbl.is