Árni Tómas Ragnarsson fjallar um málefni Landspítalans: “Sama hvað veldur, alltaf hafa sjúkir og slasaðir Íslendingar átt þess kost að leita á Landspítalann án nokkurs fyrirvara.”
ORÐIÐ Landspítali hefur alltaf vafist fyrir mér. Ekki bara hvort það eigi að vera eitt eða tvö s í orðinu heldur miklu fremur hitt; er átt við að spítalinn sé til fyrir landið? Landið sjálft verður nefnilega ekki veikt, heldur fólkið í landinu – þjóðin.
Þess vegna ætti spítalinn miklu fremur að heita Þjóðarspítalinn – eins og reyndar endurspeglast í ensku þýðingunni, The National Hospital. Spítalinn fyrir þjóðina.
Þessi spítali hefur í áranna rás líka verið til staðar fyrir alla þjóðina, unga sem gamla, sjúka sem slasaða, synduga sem saklausa. Sama hvað veldur, alltaf hafa sjúkir og slasaðir Íslendingar átt þess kost að leita á Landspítalann án nokkurs fyrirvara.
Landspítali fyrir suma?
Grandvar embættismaður, sjálfur forstjóri Landspítalans, Magnús Pétursson, sem ætti nú að kunna tungu sinni forráð eftir langa reynslu í bransanum, hefur nú öllum á óvart boðað nýja stefnu. Samkvæmt frétt Morgunblaðsins 14. febrúar veltir hann fyrir sér þeim möguleika að spítalinn eigi e.t.v. ekki lengur skilyrðislaust að þjóna þeim Íslendingum sem verða fyrir því óláni að hljóta sýkingu eftir læknisverk, sem unnin eru annars staðar en á Landspítalanum. Hann segir það ekkert sjálfsagt að spítalinn taki á sig kostnað við meðferð vegna slíkra óhappa og veltir fyrir sér þeim möguleika að tryggingar lækna úti í bæ greiði fyrir þessa þjónustu Landspítalans.
Þetta eru dæmalaus orð, en eins og fyrri daginn eru fjölmiðlar ekkert að hnjóta um þau – og lýsir það vel hve íslenskir blaðamenn vita og hugsa sorglega lítið um heilbrigðismál. Hitt er þó miklu verra að forstjóri sjálfs Landspítalans skuli missa út úr sér aðra eins dellu, þaulvanur maðurinn og ekki undir neinni pressu. Reykingamenn hafa getað reykt úr sér hjarta og lungu og fengið meðferð hjá Magnúsi, skíðamenn geta glannað niður brekkur og fengið meðferð hjá Magnúsi, handboltamenn fá að hrinda frá sér og fá meðferð hjá Magnúsi. Þá spyr Magnús sko ekki um tryggingar þessa fólks, glannaskap þess né gáleysi – sem betur fer fá allir sömu góðu ókeypis þjónustuna og Landspítalinn í rauninni veitir. En ef einhver verður svo óheppinn að veikjast vegna meðferðar hjá sjálfstætt starfandi (Magnús notaði reyndar hið ógurlega blótsyrði “einkareknar stofur”) læknum úti í bæ, þá er sko enginn miskunn hjá Magnúsi. Þá skulu tryggingar læknanna sjálfra kosta það sérstaklega, en ekki sameiginlegir sjóðir þjóðarinnar eins og í hinum tilvikunum.
Nýja yfirstjórnendur á Landspítalann!
Í nýlegri blaðagrein minni missti ég það hálfpartinn út úr mér að sjálfstætt starfandi læknar væru ofsóttir af yfirmönnum heilbrigðismála á Íslandi og þá Landspítalans sérstaklega. Ég nefndi mörg dæmi máli mínu til sönnunar. Ofangreind orð Magnúsar Péturssonar forstjóra Landspítalans staðfesta nú endanlega þennan grun minn.
Á nýlegum umræðufundi læknafélaganna um drög að nýjum heilbrigðislögum var lýst þungum áhyggjum yfir því að þar væri gert ráð fyrir mjög auknum völdum forstjóra Landspítalans. Nánast einræðisvöldum! Þær áhyggjur hljóta nú enn að hafa aukist. Sumir hafa sagt að gagnrýni á þessi lagadrög og á stjórnendur Landspítalans sé bara “innanhúsvandi spítalans”. En þegar það er haft í huga að þetta er næstum eini spítali allra landsmanna eftir sameiningar spítalanna, þá er ljóst að innanhúsvandi spítalans er vandi allrar þjóðarinnar og því ber að taka hann af fullri alvöru sem slíkan.
Að því er ég veit best hefur enginn sjúklingur, veikur eða slasaður, leitað á Landspítalann og spurt eftir Magnúsi. Eiginlega hafa þeir allir spurt eftir lækni. Samt ræður Magnús meiru og meiru á Landspítalanum, en læknarnir minna og minna. Nú þegar! En ef nýju heilbrigðislögin verða samþykkt ræður Magnús þar alveg öllu. Þá vil ég ráðleggja sjúkum og slösuðum að byrja alltaf á því að spyrja eftir Magnúsi því læknarnir munu þá ráða bara svo oggu litlu…
Yfirstjórnendur Landspítalans hafa ekki notið trausts mikils hluta undirmanna sinna um langa hríð. Það hefur lengi legið ljóst fyrir. Er nú ekki kominn tími til að stokka upp spilin? Tími til að fá nýja stjórnendur sem vilja þjóna öllum landsmönnum? Fá stjórnendur, sem vilja og geta starfað í sátt við bæði sína eigin starfsmenn og við þá lækna og aðra heilbrigðisstarfsmenn utan spítalans, sem vilja starfa með Landspítalanum og eiga hann áfram að sem flaggskip allrar þjóðarinnar í heilbrigðismálum?
Höfundur er læknir.
Greinin birtist í Morgunblaðinu