Hjarta og æðasjúkdómar eru ein algengasta dánarorsök fólks í hinum vestræna heimi og er Ísland þar engin undantekning. Það er þess vegna mikilvægt að við séum meðvituð um nokkur atriði varðandi hjarta og æðasjúkdóma/hjartaáföll.
Allir ættu að vita um og þekkja fimm mikilvæg atriði sem skipta miklu máli þegar kemur að þessum sjúkdómum.
1. Bráðdrepandi
Hjarta og æðasjúkdómar og þar með hjartaáföll eru bráðdrepandi og 40% af þeim sem látast á hverju ári deyja úr hjarta og æðasjúkdómum. Á hverju ári deyja fleiri úr hjarta og æðasjúkdómum en öllum krabbameinunum samanlagt.
2. Forvarnir
Hægt er að draga verulega úr hættunni á að fá hjartasjúkdóma, með því að hafa stjórn á blóðþrýstingi, kólesteróli og með því að reykja ekki. Um 85 prósent þeirra sem látast vegna hjartaáfalls hafa að minnsta kosti einn af þessum áhættuþáttum: Of háan blóðþrýsting, of hátt kólesteról eða eru reykingafólk.
Karlar sem eru eldri en 45 ára og konur sem eru komnar yfir 60 ára aldur ættu að taka hjartamagnýl daglega til að draga úr hættu á að fá hjartaáfall eða heilablóðfall. Margir sérfræðingar tala um að allir sem komnir eru yfir fimmtugt ættu að taka hjartamagnýl daglega. Rétt er að ráðfæra sig við lækni áður en byrjað er á að taka hjartamagnýl reglulega.
3. Einkenni
Einkenni um hjartaáfall eru ekki alltaf þau sem fólk heldur. Algengustu einkennin eru brjóstverkur eða vanlíðan. En viðvörunarbjöllurnar geta einnig verið verkir eða vanlíðan annarsstaðar í efri hluta líkamans, til dæmis í öxlum handleggjum, baki, hálsi eða maga.
Hjá konum geta merki um hjartáfall komið fram í því að þær verða andstuttar, úrvinda af þreytu, finna fyrir ógleði eða kasta upp, eða þær fá verki í bak eða kjálka.
Þeir sem finna fyrir einhverjum ofangreindum einkennum eiga strax að hringja á sjúkrabíl. Skjót viðbrögð og tafarlaus meðhöndlun skiptir öllu máli þegar losa þarf um stíflaðar kransæðar og þannig komið í veg fyrir drep í hjartavöðvanum sem verður þegar blóðflæði til hjartans stöðvast.
4. Áætlun
Þeir sem eru í áhættuhópi ættu að gera áætlun í samráði við fjölskyldu og lækni sinn um hvernig skuli bregðast við hjartaáfalli. Í því felst að þekkja viðvörunarmerkin um hjartaáfall og taka nítróglýserín, sem er æðavíkkandi lyf. Ef einkennin hverfa ekki eftir fimm mínútur, skal taka aðra og þriðju töflu af nítróglýseríni. Hafa skal tilbúinn lista yfir þau lyf sem viðkomandi tekur reglulega, til að auðvelda þeim sem sinna viðkomandi hjartasjúklingi störf sín, hvort sem það er starfsfólk sjúkrabíls eða bráðamóttöku.
Ef einkennin hverfa á innan við fimm mínútum, á viðkomandi samt sem áður að hringja í heimilis eða hjartalækninn sinn og láta vita og fá ráð.
5. Neyðartilvik
Allir þeir sem finna fyrir einkennum hjartaáfalls eiga að hringja í Neyðarlínuna 112. Og þeir eiga alls ekki að keyra sjálfir á bráðmóttöku. Ekki ætti að hunsa einkennin af þeirri ástæðu einni að viðkomandi telji sig ekki vera í áhættuhópi þeirra sem fá hjartaáfall.
Rannsóknir sýna að allt að þrír klukkutímar líða frá því fyrstu einkenna verður vart og hringt er á sjúkrabíl. Það er staðreynd að konur hafa tilhneigingu til að hringja seinna en karlar. Hver mínúta í seinkun á meðferð, getur orsakað hjartadrep. Tíminn skiptir því öllu máli.
Björn Ófeigs.
Munið eftir að læka við okkur á Facebook