Það er gleðilegt til þess að vita að kominn er hreyfing á líffæramálin á Alþingi eftir að málið dagaði upp síðasta þingi, en sagt var frá þessu í Morgunblaðinu á Laugardaginn.
Þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram frumvarp um ætlað samþykki við líffæraflutningum. Samkvæmt núgildandi lögum er gert ráð fyrir „ætlaðri neitun“ og verður því að afla samþykkist nánustu ættingja fyrir líffæragjöf ef ósk hins látna liggur ekki skýr fyrir.
Þessu verður snúið við, verði lagabreytingin samþykkt. Það þýðir að vilji fólk ekki að líffæri eða vefir úr líkama þess verði numdir brott eftir dauðann, þá þarf það að koma þeirri afstöðu á framfæri við nánasta aðstandanda eða skrá það þannig að tryggt sé að það komi fram við andlát.
Lagt er til í frumvarpinu að lögin taki gildi 1. janúar 2015 en fram að því skuli velferðarráðuneytið kynna breytinguna fyrir landsmönnum.
Þúsundir deyja árlega í bið eftir líffæri
í greinargerð með frumvarpinu segir að tækniframfarir hafi aukið eftirspurn eftir líffæraígræðslum, þannig að um árabil hafi verið skortur á líffærum til ígræðslu. Mörg ríki hafi því breytt löggjöf sinni til að auðvelda fólki að gerast líffæragjafar.
„Þörf okkar Íslendinga fyrir líffæri til ígræðslu hefur aukist verulega á undanförnum árum. Skorturinn á líffærum er það mikill að við getum tæpast búist við að fá líffæri frá öðrum Norðurlandaþjóðum mikið umfram það sem við gefum,“ segja þingmennirnir.
Ætlað samþykki er við lýði m.a. í Noregi, Svíþjóð og Finnlandi. Flutningsmenn tillögunnar telja að verði þessi leið ekki samþykkt hér væri næstbesta leiðin að bjóða almenningi að láta skrá sig sem líffæragjafa í ökuskírteini. Það mun gert t.d. í Ástralíu.
Biðtími eftir líffærum er langur og árlega deyja í heiminum þúsundir sjúklinga á meðan þeir bíða.
Flutningsmenn frumvarpsins eru Silja Dögg Gunnarsdóttir Framsóknarflokki, Árni Þór Sigurðsson Vinstri grænum, Willum Þór Þórsson Framsóknarflokki, Ragnheiður Ríkharðsdóttir Sjálfstæðisflokki, Björt Ólafsdóttir Bjartri framtíð, Helgi Hrafn Gunnarsson Pírötum, Valgerður Bjarnadóttir Samfylkingu, Lilja Rafney Magnúsdóttir Vinstri grænum, Vigdís Hauksdóttir Framsóknarflokki og Össur