-Auglýsing-

Varað við lágkolvetnamataræði

Of feiturAxel F. Sigurðsson hjartalæknir sem heldur úti mataraedi.is skrifar í kvöld pistil um fréttaflutning þar sem varað er við lágkolvetnamataræðinu. Axel bendir á athyglisverðar staðreyndir sem mikilvægt er að hafa í huga í umræðunni, en gefum honum orðið.

Lágkolvetnamataræði er vinsælt fréttaefni um þessar mundir og var tekið til sérstakrar umfjöllunar í sjónvarpsfréttum RUV fyrr í kvöld. Margir sérfræðingar hér á landi telja sérstaka ástæðu til að vara við þeirri þróun sem átt hefur sér stað samfara vaxandi vinsældum þessa mataræðis. Áður hafa sænskir sérfræðingarbent á, í umdeildri blaðagrein, að lágkolvetnamataræði sé ógn við lýðheilsu í Svíþjóð.

-Auglýsing-

Umfjöllun RUV

“Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði við Háskóla Íslands segir að lágkolvetnalíffstíll sá sem nú er í tísku sé bóla sem geti haft óæskileg áhrif á heilbrigði þjóðarinnar. Lágkolvetnamataræði sé meðferðarúrræði sem henti takmörkuðum hópi fólks og sé engin allsherjarlausn fyrir almenning.

- Auglýsing-

Lágkolvetnamataræði inniheldur eins og nafnið gefur til kynna lítið af kolvetnum. Þetta mataræði er talið gott vopn í baráttunni við aukakílóin og meðal annars er þeim sem kljást við offitu ráðlagt að taka það upp. Þá eru kolvetnin tekin út og fitu bætt inn í staðinn.

Margir hafa gagnrýnt hvernig faglegar ráðleggingar um þetta mataræði hafa breyst í markaðssetningu á lágkolvetnalífsstíl sem allsherjarlausn fyrir hvern sem er, en að þetta henti í raun takmörkuðum hópi fólks í skamman tíma, enda virðast alls kyns lágkolvetnakúrar fara eins og eldur í sinu um þjóðfélagið. Lífsstíls-og mataræðisbækur seljast grimmt en eru þó mjög umdeildar og fjöldi lágkolvetnaklúbba eru á netinu. Þetta gengur svo langt að sjáanleg aukning er í sölu á smjöri og rjóma.”

Ingibjörg segir: “Þetta er kynnt sem lífsstíll en í raun og veru er þetta meðferðarúrræði. Þetta er kannski svona sambærilegt eins og að senda alla þjóðina á blóðþrýstingslækkandi lyf.”

Ingibjörg segir sjálf aldrei myndi setja fólk á þennan kúr nema hafa í kringum sig fagfólk sem gæti haldið vel utan um viðkomandi. Hún sé þó ekki að gera lítið úr meðferðinni sem slíkri og gott ef fólk á lágkolvetnafæði sé að léttast, en þegar fólk sé farið að túlka hlutina eins og því sýnist sé það að bóða hættunni heim.

Ingibjörg bætir við: “og fara að taka út úr þessu rjómann og beikonið og bæta því á sitt hefðbundna fæði… og er það þá gott? Við höfum ekkert í höndunum og meira að segja það mikið í höndunum til að sýna fram á að það geti bara hreinlega verið skaðlegt.”

Hvenær er lágkolvetnamataræði meðferðarúrræði?

Lágkolvetnamataræði hefur verið mér hugleikið um skeið vegna starfa minna sem læknir. Á síðustu árum hef ég upplifað mikla aukingu á offitu og heilsufarsvandamálum sem henni fylga, svo sem sykursýki af tegund 2, háþrýstingi og blóðfituröskun.

Í grein sem ég birti hér á síðunni fyrr í haust skrifaði ég:  “Ég mæli einungis með lágkolvetnamataræði fyrir þá sem eru of þungir og þurfa að léttast, einstaklinga sem glíma við efnaskiptavillu, sykursýki af tegund -2, eða háþrýsting sem rekja má til ofþyngdar eða offitu.”

Samkvæmt norrænni könnun sem birt var fyrir ári síðan eru 57.1 prósent fullorðinna Íslendinga yfir kjörþyngd, 17.1 prósent þjást af offitu (BMI > 30) og 39.3 prósent hafa ofþyngd (BMI 25.0 – 29.9).

Nýlega birtu sænskir sérfræðingar ítarlega skýrslu um notkun mataræðis eða matarkúra fyrir einstaklinga sem þjást af offitu. Sérfræðingarnir fóru yfir 16.000 greinar sem innihalda niðurstöður vísindarannsókna um þetta efni og hafa verið birtar í fagtímaritum. Niðurstaðan var sú að lágkolvetnamataræði skilaði bestum árangri, borið saman við aðrar aðferðir hvað varðar þyngdartap þegar horft var til sex mánaða. Í skýrslu sérfræðinganna er sérstaklega tekið fram að ekki sé ástæða til að ætla að lágkolvetnamataræði sé skaðlegt fyrir heilsuna.

- Auglýsing -

Umfjöllun RUV vakti athygli mína fyrir margra hluta sakir. Ábending Ingibjargar um að lágkolvetnamataræði sé ekki fyrir allan almenning er sannarlega þörf og mikilvæg. Hins vegar kemur mér nokkuð á óvart að hún virðist líta á þessa meðferð sem varasama, jafnvel fyrir þá sem gætu haft gagn af henni, eins og um væri að ræða lyf með hættulegar aukaverkanir.

Ingibjörg dregur fram í dagsljósið hættuna á misskilningi þegar kemur að umfjöllun og markaðssetningu í tengslum við mataræði. Þetta er mikilvægt atriði sem rétt er að hafa í huga. Sannarlega hlýtur að vera óæskilegt að bæta rjóma og beikoni ofan á hefðbundið mataræði. Það hefur þó auðvitað ekkert að gera með lágkolvetnamataræði.

Hins vegar finnst mér fagfólk oft reyna að draga fram ranga mynd af lágkolvetnamataræði. Þótt fituneysla sé aukin er alls ekki nauðsynlegt að auka neyslu á beikoni og rjóma. Annars konar fitu má finna víða í dýra-og jurtaríkinu. Í nýlegum norrænum ráðleggingum um mataræði er einmitt bent á að við höfum val þegar kemur að fituneyslu og getum hæglega valið fitur sem almennt eru skilgreindar sem hollar, einómettaðar eða fjölómettaðar. Hins vegar hafa engar vísindarannsóknir sýnt fram á að beikon eða rjómi sé skaðlegt heilsunni, en það er önnur saga.

Hafandi í huga að lágkolvetnamataræði er viðurkennd meðferð við offitu er ljóst að rúmlega 17 prósent fullorðinna Íslendinga gætu nýtt sér þessa leið til að léttast. Væri ekki ráð fyrir lýðheilsuyfirvöld og næringarfræðinga, í stað þess að sá efasemdarfræjum og ótta meðal fólks, að gefa leiðbeiningar um lágkolvetnamataræði og notagildi þess. Í þessu gætu falist ráð um hvað á að borða mikið af kolvetnum, hvaða kolvetni á að velja, hversu mikla fitu á að borða og hvaða fitu á að velja. Jafnframt væri skynsamlegt að leiðbeina um hvernig best er að tryggja inntöku nauðsynlegra vítamína og steinefna, hvernig á að bregðast við vökvatapi og öðru sem getur fylgt sérstaklega í byrjun.

í ljósi núverandi þekkingar hlýtur það að vera skylda mín sem læknis sem sinnir einstaklingum með offitu, ofþyngd eða efnaskiptavillu að upplýsa þá um meðferð sem rannsóknir benda til að gefi bestan árangur þegar kemur að því að léttast og ekki hefur verið sýnt fram á að sé skaðleg heilsunni. Annað væri óábyrgt. Fagkólki ber að fræða um mismunandi meðferðarleiðir, kosti þeirra og galla. Að öðrum kosti getur einstaklingurinn ekki tekið upplýsta ákvörðun um hvaða leið hann vill fara.

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-