Pétur Gunnarsson skrifar áhugaverðan pistil á eyjan.is í dag og umfjöllunarefnið er mönnun á neyðarbíl.
Mér finnst það enn undrunarefni hve lítil viðbrögð það hefur vakið í þjóðfélaginu að búið er að taka lækna af neyðarbílunum á höfuðborgarsvæðinu. Þó er enn glóð í þessu máli og maður eiginlega trúir því ekki að það sé búið. Ég velti því fyrir mér hvort það sé skýringin á því hvað þetta mál fer lágt í umræðunni (fyrir utan óróann í pólitíkinni) hvernig stjórnarandstaðan í landinu er um þessar mundir, sérstaklega hvað varðar hlut höfuðborgarinnar. Nánast allir höfuðborgarþingmenn eru í stjórnarliðinu. Þá var öldin önnur þegar sumarlokanir á göngudeildum og stoðdeildum ollu hér fári í þjóðfélaginu dögum og vikum saman. Núna er verið að skerða bráðaþjónustu, sem hefur verið einhver sú besta í heimi, og það heyrist varla orð.
Í gær var viðtal í Kastljósi við Má Kristjánsson, sviðstjóra bráða- og slysasviðs LSH og ábyrgðarmann breytinganna. Þar viðurkenndi hann að ákvörðun um að taka læknana af bílnum muni ekki stytta viðbragðstíma í alvarlegustu útköllunum; sem samkvæmt tölum frá LSH er milli 200 og 400 á ári. Hann viðurkennir hins vegar ekki að viðbragðstíminn lengist, enda hafi það ekki verið rannsakað. En einmitt það er kjarninn í gagnrýni þeirra unglækna, sem einir manna hafa talað gegn breytingunni, fyrir daufum eyrum fólks úti í samfélaginu. Þeir efast um réttmæti breytingarinnar, m.a. vegna þess að engin gögn liggi fyrir um hvaða áhrif þetta muni hafa á viðbragðstímann. Þeir segja að þessar breytingar geti kostað mannslíf og benda aftur og aftur á að hér sé árangur í endurlífgunum hvað bestur í heiminum, – vegna þess að læknar eru á neyðarbílnum.
Í viðtalinu segir Már að breytingin spari 31 milljón króna og þeir peningar séu sóttir í vasa unglæknanna, hann gefur í skyn að þeirra mótmæli stjórnist af fjárhagslegum hagsmunum frekar en umhyggju fyrir sjúklingum. Sú magnaða staðhæfing hlýtur að auka kapp unglæknanna í bardaganum. Ég hef bara heyrt þá halda fram faglegum áhyggjum af meðferð sjúklinga og árangri af endurlífgunum, sem ég segi einu sinni enn að hefur verið 18% hérlendis en 11% að meðaltali erlendis. Unglæknarnir telja að þeim árangri eigi nú að tefla í tvísýnu.
En burtséð frá launum unglæknanna á svo að nota hluta af sparnaðinum til þess að kaupa bíl til að keyra með lækna til bráðasjúklinga út um allan bæ – svona 200-400 sinnum ári. Á þann bíl þarf væntanlega að ráða mannskap á vaktir, þrjá starfsmenn.
Þessi bíll er enn ekki kominn þótt breytingarnar séu komnar til framkvæmda. Ráðuneytið á meira að segja eftir að samþykkja að hann verði keyptur – en þetta er jú sama ráðuneytið og heimtaði að læknarnir yrðu teknir af bílnum til þess að spara 31 milljón. Þess vegna þarf nú að senda sjúkrabíl eftir lækni í bráðatilvikum og Bjarni Þór Eyvindsson, leiðtogi unglæknanna, segir að það hafi nú þegar valdið vandræðum. Viðbragðstíminn er þess vegna ennþá lengri núna en ef þessi sérstaki bíll fyrir læknana væri til staðar. Ætli þessi skrípaleikur sé allt spurning um það að láta Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu eða Rauða krossinn borga kostnaðinn við þetta nýja form af bráðaþjónustu í stað heilbrigðisráðuneytisins? Bókhaldsæfingar, í besta falli.
Í þessu viðtali, sem ég bendi á að hægt er að horfa á hér, mótmælir sviðstjórinn því að að slysadeildin sé í fjársvelti. Mér heyrist hann einnig segja að áhættan af breytingunni sé ekkert óeðlilegt, það fylgi því jú alltaf áhætta að leita sér lækninga !?! Ég held hann hafi verið að meina þetta.
ps. Meðan þetta blogg var skrifað voru þingmenn að ræða einu sinni enn atvinnuástand í sjávarbyggðum. Svo sneru þeir sér að því að ræða það áhugamál Bjarna Harðarsonar að efla geitastofninn í landinu. Geitastofninn.
www.eyjan.is 29.01.2008