Rúmlega 200 manns bíða eftir að komast í hjartaþræðingu á Landspítalanum. Þá eru fimmtíu manns á biðlista eftir að komast í hjartaskurðaðgerð sem oft er nauðsynleg eftir hjartaþræðingu. Tíu þeirra sjúklinga bíða á hjartadeild þar sem þeir eru of veikir til að vera heima hjá sér. Þeir komast ekki í hjartaskurðaðgerð vegna húsnæðisskorts á gjörgæsludeild.
Gestur Þorgeirsson, yfirlæknir á hjartadeild Landspítalans, segir stöðuna óvenju slæma nú þar sem hvatt hafi verið til að deildin taki við fleiri sjúklingum í hjartaþræðingu til að vinna á biðlistanum.
“Það er ekki hægt að halda uppi átaki í hjartaþræðingum ef sjúklingar komast ekki í þær aðgerðir sem reynast nauðsynlegar eftir þær,” segir Gestur. Hann bendir á að hjartadeildin búi einnig við húsnæðisskort og oft þurfi sjúklingar að liggja á göngum eftir hjartaþræðingu.
“Mér finnst þessi staða með ólíkindum. Það er engin manneskja að gamni sínu á biðlista eftir hjartaaðgerð heldur vegna þess að hún þarfnast aðgerðarinnar bráðnauðsynlega. Líf og heilsa fólks er í veði,” segir Bjarni Torfason, yfirlæknir hjarta- og lungnaskurðdeildar, og bætir við “þetta mál þolir enga bið.”- kdk
Fréttablaðið 12.12.2007