Tilfinningar

Það er eðlilegt að vera tilfinningalega úrvinda á stundum þegar maður er að takast á við erfið veikindi maka eða barna sinna. Það er alveg sama hversu jákvæð manneskja þú ert eða hversu mikið þú elskar þann sem þú annast og er veikur, þú ert mannleg/ur og munt upplifa neikvæðar tilfinningar. Það er öruggt, það sem ekki er öruggt er hvernig þú munt bregðast við þeim og hvað þú munt gera við þær.
Fá þær útrás þegar þú brestur í grát yfir nánast engu úti í búð eða yfir sjónvarpinu? Með því að skamma börnin sem eiga það ekki skilið? Tekur þú þær út á þeim veika sem þú elskar eða heldur þú þeim langt langt niðri undir yfirborðinu þar til þú springur og færð taugaáfall?

Málið er að það er ekkert auðvelt að takast á við þessar tilfinningar í heimi sem tilbiður „sterkt“ fólk sem lætur engan bilbug á sér finna. Skilaboðin eru skýr um að horfa á það jákvæða, setja „sálarflækjur“ til hliðar og halda áfram enda veikleikamerki að sýna „neikvæðar“ tilfinningar. Það er hins vegar ljóst að þó þessar tilfinningar séu kallaðar neikvæðar þá eru þær eðlilegar og jafnvel gagnlegar.

En hvaða tilfinningar erum við að tala um? Hér eru nokkrar algengar…

  1. Ótti
    Hvað ef honum batnar ekki? Hvernig kemst ég af án hans ef illa fer? Við óttumst það sem við þekkjum ekki og vitum ekki hvernig við eigum að takast á við, upplifum okkur hjálparlaus og ráðavillt.
  2. Leiði
    Ég syrgi það sem ég hef misst. Það sem hefði getað orðið og hefði átt að verða. Ég syrgi drauma okkar og plön. Það er erfitt að horfa upp á foreldra með heilbrigð börn, hjón sem skokka saman úti með hundinn og plana skíðaferð til Austurríkis þegar ljóst er orðið að aðstæður bjóða ekki lengur upp á slíkt.
  3. Samviskubit
    Ég geri ekki nóg! Ég sinni honum ekki nógu vel! Ég sýni honum ekki nógan skilning! Af hverju hef ég það svona gott á meðan hann þjáist? Flestir sem annast aðra þjást af samviskubiti yfir því að gera ekki nóg, að hafa fundist gaman í bíó á meðan hann lá heima veikur eða yfir því að hafa pirrast á honum sem getur ekkert gert að því að hann er veikur.
  4. Reiði
    Ég á ekkert líf! Hver á svo að annast mig? Þetta er ekki sanngjarnt! Reiðin á sér margar uppsprettur og er beint í margar áttir. Til þeirra sem voru ollu veikindunum, til þess sem er veikur, til læknanna sem lítið geta gert og til þeirra sem umgangast okkur og ekkert skilja.
  5. Sök
    Þetta er þér að kenna! Þú hefðir ekki átt að reykja í öll þessi ár! Þetta er mér að kenna, ég hefði átt að sinna honum betur! Það að beina sök eitthvað er mjög mannlegt. Þegar eitthvað bjátar á þá leitum við sökudólga, sama hversu rökrétt það er.
  6. Ergelsi
    Ég þoli ekki svefntruflanirnar! Ég vinn og vinn en fæ ekkert nema gagnrýni! Ég er dauðþreytt en get ekki hvílt mig því hann þarf að hvíla sig! Það að annast aðra veitir ýmis tilefni til ergelsis! Það er alveg sama hvað við reynum, aðstæðurnar eru ekki undir okkar stjórn.
  7. Þunglyndi
    Ég get ekki hætt að gráta. Af hverju er ég að reyna, þetta er vonlaust! Það er svo auðvelt að finna fyrir þunglyndi og vonleysi þar sem við erum stanslaust minnt á veruleika sem við viljum ekki horfast í augu við og samþykkja.
  8. Gremja
    Af hverju hann? Af hverju ég? Þetta er ekki réttlátt! Við horfum á annað fólk og sjáum ekki særindin eða erfileikana þar, og reiknum þá ekki með að þeir séu þar. Og svo koma allar ráðleggingarnar og athugasemdirnar. Hafið þið prufað… Þið eruð nú heppin að… og við jánkum og göngum í burtu hugsandi… ef þið bara vissuð!
  9. Einmanaleiki
    Ég er ein! Enginn skilur það sem ég er að ganga í gegnum. Engin áttar sig á hvernig þetta er. Það er auðvelt að vera einmana þegar maki er veikur. Það sem voru einu sinni sameiginleg áhugamál eru það ekki lengur. Það sem voru einu sinni sameiginlegar ákvarðanir eru það ekki lengur.

Það getur bara verið svo erfitt að láta þessar tilfinningar í ljós og nefna þær á nafn því þær vilja blikna í samanburði við það sem sá veiki þarf að takast á við. Hver erum við að kvarta þegar við höfum þó heilsu okkar, starf og frelsi? Það virkar svo eigingjarnt og sjálfselskt að kvarta undan þreytu þegar makinn veiki eða barnið er alltaf þreytt og með verki líka! Þetta er hins vegar ekki sjálfselskt, þetta er eðlilegt, og eins og áðan sagði, jafnvel gagnlegt. Þeir heilbrigðu þurfa að halda sér heilbrigðum, fyrir þann veika og fyrir sjálfan sig. Það er alveg ljóst að það gagnast engum að fleiri missi heilsu sína í fjölskyldunni. Þessar tilfinningar segja okkur því að eitthvað þarf að breytast. Kannski þarf ekkert annað en smá frí, kannski þarf nokkra tíma hjá góðum sálfræðingi þar sem tækifæri gefst til að losa um uppsafnað ergelsi eða ótta. Kannski þarf aukna áherslu á mataræði eða hreyfingu. Kannski þarftu bara að sofa meira. Hvað sem það er þá er mikilvægt að átta sig á því að eitthvað er að gerjast og eitthvað þarf að gera. Þetta er eðlilegt merki álags en ekki sjálfselsku.

Lestu ráðin 10 hér á síðunni, hér eru nokkur að auki:

Talaðu:
Það er ekki bara gott heldur nauðsynlegt að finna einhvern sem leyfir þér að losa. Finndu þennan einhvern og láttu vaða!

Fáðu útrás:
Farðu út að vinna í garðinum, prjónaðu, smíðaðu módel, farðu á námskeið, taktu myndir, skrifaður sögur eða ljóð. Gerður eitthvað sem gerir þér kleyft að gleyma stað og stund!

Endurmótaðu drauma:
Taktu þér þar sem þú ert. Það þýðir líka að taka aðstæðum eins og þær eru. Þaðan getur þú svo unnið þig og látið þig dreyma í takt við veruleika lífs þíns.

Blómstraðu í eigin garði:
Kannski klisja en gerðu það besta úr því sem þú hefur. Leyfðu þér að lifa sjálfstæðu lífi. Blómstraðu í eigin garði!