Þyngdarstjórnun er mjög mikilvægur hluti þess að viðhalda góðri heilsu. Hún felur í sér að koma í veg fyrir þyngdaraukningu og viðhalda heilbrigðri þyngd.
Þyngdarstjórnunin er sérlega mikilvæg ef mikið er um offitutengda sjúkdóma í fjölskyldunni eða ef þú ert með einhverja kvilla sem gætu versnað með aukinni líkamsþyngd. Dæmi um slíka kvilla er of hár blóðþrýstingur eða liðagigt. Það að missa nokkur kíló getur minnkað blóðfitu eins og kólesteról töluvert og minnkað þannig áhættuna á hjarta og æðasjúkdómum.
Besta leiðin til að komast aftur niður í heilbrigða þyngd er eins og við flest vitum að borða hollan og góðan mat og hreyfa sig. Ef þú hefur misst nokkur kíló þá er mjög mikilvægt að þau komi ekki aftur. Hér komum við aftur að þyngdarstjórnun. Þú munt taka eftir því að þegar þú hefur misst jafnvel bara fáein kíló að þér líður mun betur en áður og jafnvel áður en árangurinn sést í speglinum. Aukin vellíðan og kraftur hvetur þig til aukinnar hreyfingar og hvetur þig til þess að halda áfram að borða hollari fæðu. Það myndast jákvæður spírall og allt er á uppleið – nema kílóin.
Mátuleg þyngd = mátulegt mitti
Margir finna fyrir því að aukakílóin safnist á mittið. Ef það að vera með mitti er frekar óljós minning en raunveruleiki, þá gæti það verið merki um að þú sért í aukinni áhættu á því að fá hjarta og æðasjúkdóma. Sú fita sem situr þar nefnist innankviðsfita (e. intra-abdominal fat) og er hún mjög óholl, sérstaklega með tilliti til hjarta og æðasjúkdóma.
Rannsóknir hafa sýnt að líkurnar á því að fá hjarta og æðasjúkdóma aukast í takt við aukið mittismál. Með því að mæla mittið getur þú komist að því hvort það sé aukin áhætta á hjarta og æðasjúkdómum hjá þér.
Hvar liggja mörkin?
Hjá karlmönnum er aukin áhætta ef mittismál þeirra er 94 cm eða meira
Hjá konum er aukin áhætta ef mittismál þeirra er 80 cm eða meira
Hjá karlmönnum er mikil áhætta ef mittismál þeirra er 102 cm eða meira
Hjá konum er í mikil áhætta ef mittismál þeirra er 88 cm eða meira
Samkvæmt þessu er mjög mikilvægt að taka það alvarlega ef mittismálið mælist of mikið. Það er mikil þörf á að bregðast strax við með bættum lifnaðarháttum og því að temja sér þyngdarstjórnun.
Höf:
Alma María Rögnvaldsdóttir
Hjúkrunarfræðingur
Heimild: islenskt.is