-Auglýsing-

Strax grafalvarlegt ástand

Hjúkrunarfræðingar búa sig undir að yfirvinnubann hefjist klukkan 16 fimmtudaginn 10. júlí. Mikil samstaða, einhugur og baráttuvilji í röðum hjúkrunarfræðinga sem vilja semja sem fyrst.

FUNDUR hjúkrunarfræðinga með samninganefnd ríkisins í gær var árangurslaus. Í gærkvöldi fóru hjúkrunarfræðingar síðan yfir stöðuna á fjölmennum fundi og er ljóst að boðað yfirvinnubann hefst 10. júlí að öllu óbreyttu.

-Auglýsing-

Engin yfirvinna
Fundur hjúkrunarfræðinga á Grand hóteli í gærkvöldi var mjög fjölmennur og mikill hugur í fundarmönnum. Hjúkrunarfræðingar eru ekki sáttir við stöðuna og segja að yfirvinnubann komi sér illa fyrir alla, en ábyrgðin sé hjá stjórnvöldum, því þau hafi ekki komið til móts við hjúkrunarfræðinga í samningaviðræðunum.

Elsa B. Friðfinnsdóttir, formaður Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga, segir að stemningin hafi verið góð. Fundarmenn hafi gefið tóninn með miklu hvatningarklappi og síðan hafi verið farið yfir samningaviðræðurnar og hvernig hjúkrunarfræðingar ættu að haga sér í boðuðu yfirvinnubanni.

63,64% félagsmanna greiddu atkvæði um yfirvinnubannið og studdu tæp 95% hjúkrunarfræðinga það. Þetta er í fyrsta sinn sem FÍH boðar yfirvinnubann í kjaraviðræðum og segir Elsa að það þýði einfaldlega að engin yfirvinna verði unnin. Allir muni gegna sinni starfsskyldu en hvorki taka aukavaktir né útköll.

Stjórnvöld taki við sér
„Þetta verður grafalvarlegt ástand strax á fyrstu klukkustundunum,“ segir Elsa. Hún segir að skilaboð fundarmanna til ríkisvaldsins séu einfaldlega þau að stjórnvöld taki mark á stöðunni, geri sér grein fyrir til hvers yfirvinnubann geti leitt inni á stofnununum og bregðist við með því að opna á eitthvað sem geti leitt til lausnar í deilunni.

- Auglýsing-

Elsa segir að vaktakerfi hjúkrunarfræðinga sé flókið og ólíkt á milli stofnana. Heilsugæslan sé að hluta til með helgarútköll og sumir hjúkrunarfræðingar séu á bakvöktum svo dæmi séu tekin. Farið hafi verið yfir stöðuna og væntanleg viðbrögð. Fundargestir hafi sýnt mikla samstöðu, einhug og baráttuvilja og tekið undir málin með hvatningarklappi hvað eftir annað. „Þetta var mikil stemning,“ segir hún.

Fundur á mánudag
Næsti fundur með samninganefnd ríkisins verður á mánudag. Elsa segir að heppilegast sé fyrir alla að viðunandi niðurstaða náist áður en til yfirvinnubannsins komi. „Ég dreg enga dul á það að það er eitthvað sem ég vildi helst að yrði niðurstaðan,“ segir hún. Elsa bætir við að sú niðurstaða fáist ekki öðruvísi en að opnað verði á einhverjar hugmyndir hjúkrunarfræðinga til lausnar deilunni. „Við notum tímann af fullum vilja til þess að semja.“

Eftir Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is

Morgunblaðið 01.07.2008 

-Auglýsing-
-Auglýsing-
Björn Ófeigsson
Björn Ófeigsson
Björn er ritstjóri og ábyrgðarmaður hjartalif.is með brennandi áhuga á hjartans málefnum auk þess að vera sjálfur hjartabilaður og með gangráð/bjargráð.

Tengt efni

-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
Auglýsing
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-
-Auglýsing-