Niðurskurður til sjúkrahúsa verður 1,3 milljarðar á næsta ári en ekki 3 milljarðar eins og gert var ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu. Þetta sagði Guðbjartur Hannesson, heilbrigðis- og tryggingaráðherra, eftir ríkisstjórnarfund í dag. Engin stofnun verður skert um meira en 12%.
Upphaflega var gert ráð fyrir í fjárlagafrumvarpinu að framlög til heilbrigðismála yrðu lækkuð um 4,7 milljarða, en þar af átti að lækka útgjöld til heilbrigðisstofnana, annarra en Landspítala og sjúkrahússins á Akureyri, um þrjá milljarða.
Guðbjartur sagði að fjárlaganefnd væri að fara yfir fjárlögin í heild þar sem m.a. væri tekið tillit til nýrrar hagspár Hagstofunnar. Ekki hefði verið gerðar tillögur um að skera framlög til annarra stofnana í staðinn.
Guðbjartur sagði að búið væri að fara yfir rekstur allra stofnana upp á nýtt með kerfisbundnum hætti. Forstöðumenn stofnana hefðu komið fram með sínar hugmyndir. „Það var farið yfir þetta með heildstæðum hætti og gerðar nýjar tillögur miðað við það.“
Guðbjartur sagðist gera sér vonir um að það yrði meiri sátt um þessar tillögur en tillögurnar sem voru í frumvarpinu. „Allur þessi niðurskurður er erfiður, en það munar mjög miklu á þessum tillögum og frumvarpinu. Við erum að lækka niðurskurðinn um meira en helming. Í fyrri tillögum var gert mest ráð fyrir 40% niðurskurði, en nú verður engin skert um meira en 12%.“
Guðbjartur sagði að það væri verkefni forstöðumanna að vinna úr þessum niðurskurði, en hann sagðist ekki geta útilokað að grípa verði til uppsagna til að ná 1,3 milljarða sparnaði.
www.mbl.is 26.11.2010