ÝMSAR stórar veitingahúsakeðjur í Bandaríkjunum keppast um að yfirbjóða hver aðra með “ofurréttum”, sem eru í raun ekkert annað en uppskrift að offitu, hjartasjúkdómum og heilablóðfalli. Kemur þetta fram hjá bandarískri stofnun, sem vinnur að almannaheill.
Í viðvörunarorðum stofnunarinnar, Center for Science in the Public Interest, CPSI, segir, að réttir veitingahúsanna verði “æ hættulegri” enda innhaldi þeir oft meira en 2.000 kaloríur, rúmlega það, sem kona þarf í heilan sólarhring.
Skelfilegur samsetningur
Meira en fimmti hver Bandaríkjamaður, um 60 milljónir manna, þjáist af offitu en CPSI segir, að stóru veitingahúsakeðjurnar virðist ekki hafa mikinn áhuga á að berjast gegn þeirri þróun.
“Í stað þess að keppast um að bjóða upp á holla rétti, reyna veitingahúsin að slá hvert annað út í stærri og hættulegri forréttum, aðalréttum og eftirréttum. Hamborgarar, pitsur og annað í þeim dúr hafa aldrei verið neinir sérstakir hollusturéttir en nú sjáum við lasagna með kjötbollum að auki, ís með köku- og sælgætisbitum, beikon-ostborgarapitsur og taco úttroðið af nauta- og kjúklingakjöti. Þessi hryllingur er ávísun á ömurlegt líkamsástand og sjúkdóma,” segir Michael Jacobson, framkvæmdastjóri CPSI.
Á sumum bandarískum veitingastöðum er hægt að fá forrétt, sem er 2.000 kaloríur, aðalrétt upp á 2.000 kaloríur og eftirrétt, sem inniheldur 1.700 kaloríur. Sem sagt 5.700 kaloríur, rúmlega tvöfaldan dagskammt fullorðins karlmanns og hátt í þrefaldan fyrir konu.
Margo Wootan, yfirmaður næringarmála hjá CPSI, segir, að Bandaríkjamenn fari nú út að borða fjórum sinnum í viku til jafnaðar. Segir hún að kannanir sýni að konur, sem borði úti fimm sinnum í viku eða oftar, fái að meðaltali 300 fleiri kaloríur daglega en þær sem hafa til sinn eiginn mat.
“Í Bandaríkjunum er ekkert jafnauðvelt og að hlaupa í spik.”
Slæmt ástand í Bretlandi
Baráttan gegn óhollu líferni og offitu er að sækja í sig veðrið víða um heim en eins og fram hefur komið í fréttum, hafa yfirvöld í Bretlandi hótað að svipta konu þar forræði yfir syni sínum, átta ára gömlum, en hann vegur um 100 kíló. Verði ekki breyting á mataræði hans á hann á hættu að fá sykursýki á unglingsárunum og alvarlega hjarta- og æðasjúkdóma upp úr tvítugu.
Talið er, að aðeins á Englandi deyi árlega 30.000 manns af völdum offitu en af henni þjást 22% allra Breta. Nú glíma 10% sex ára barna þar við offitu og heil 17% 15 ára unglinga.
Áætlaður kostnaður samfélagsins vegna offitunnar er talinn vera nálægt 1.000 milljörðum ísl. kr. árlega.
Eftir Svein Sigurðsson svs@mbl.is
Frétt birtist í Morgunblaðinu 28 febrúar 2007